Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, apríl 21, 2008 :::
 
Hæ,
Í umræðum við eiginmann minn og eldri dóttur okkar yfir kvöldverði barst í tal að karlmaður nokkur úti í heimi væri óléttur. Ekki óléttur eins og ótal karlmenn, sem virðast komnir sjö til níu mánuði á leið og eru spurðir reglulega að því hvenær þeir ætli að eiga, heldur er þessi umræddi karl með barn í maganum – eða réttara sagt leginu. Fjölskyldumeðlimir mínir voru aldeilis forviða yfir því að ég skyldi ekki hafa heyrt þessa frétt og satt að segja var ég það líka, vegna þess að á okkar heimili er þess vandlega gætt að ekki sé misst af nokkrum fréttatíma. Þar sem þessar merku frettir höfðu farið fram hjá mér var ég yfir súpunni leidd í allan sannleika um þennan ólétta karlmann.
Sá ólétti hafði sem sagt áður verið kona og látið breyta sér í karlmann. Hann hafði svo hafið sambúð við kvenmann – sérfræðingarnir í fréttinni vissu ekki hvort sú hafði áður verið karlmaður og látið breyta sér í annað kyn - en það hefði ekki komið mér á óvart og fundist skemmtileg viðbót við fréttina.
Kom svo að því að parið langaði að eignast barn og kemur þá í ljós, að sú veran í sambandinu sem kvenkyns er, getur ekki eignast barn, þannig að farið er að skoða aðrar leiðir. Uppgötvast þá að ekki virðist hafa verið bundið fyrir alla kvenkynshnúta þegar konunni, sem nú er karlmaðurinn í sambandinu, var breytt í karl, þannig að hann er með öll tól og ræki til að ganga með og ala barn. Er nú gerð gangskör að því að hann gangi með barnið, málið lagt fyrir lækna og ráðamenn. Mér skildist að menn hefðu helst sett það fyrir sig að viðkomandi væri með skegg og óviðkunnanlegt að hann gengi með barn. Ég segi það líka – mér er alveg sama þótt einhver karlmaður sé óléttur, en mér finnst skeggvöxtur í andliti einhvern veginn ekki alveg ganga við óléttuföt. Ekkert annað við þetta að athuga.
Allt hafðist þetta að lokum með (g)óðra manna hjálp - en ég er viss um að Guð hefur ekki komið nálægt þessu – karlinn, sem einu sinni var kona, er fúlskeggjaður og á von á barni með konu, sem kannske var einu sinni karlmaður.
Eða á hann von á barni með sjálfum sér? Gerði hann sjálfan sig óléttan? Ég yrði ekki hissa. Vill þessi karlmaður, sem nú er óléttur og var einu sinni kona, kannske verða aftur kona einhvern daginn? Vill hann ekki bara vera bæði karlmaður og kvenmaður í senn?
Jú, það er það sem hann vill - af því að hann veit ekkert hvað hann vill, ekkert nægir honum til að hljóta lífshamingju. Það er til fullt af hálfvitum í heiminum, sem eru ekki tilbúnir að sætta sig við það sem Skaparinn gaf þeim, sem ekki geta sætt sig við neinar takmarkanir og vilja allt sem í boði er og langt umfram það. Og það er til nóg af hálfvitum sem fara út yfir öll mörk heilbrigðrar skynsemi og uppfylla þessar fáránlegu óskir og ekki nóg með það, heldur ganga þeir fram fyrir skjöld og reyna að telja íbúum jarðarkringlunnar trú um að þetta sé hinn eðlilegasti hlutur.
Ég vil ekki samþykkja að þetta sé eðlilegur hugsunarháttur. Mér finnst þetta úrkynjun.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:41 e.h.


sunnudagur, apríl 20, 2008 :::
 
Hæ,
Undanfarna daga hefur herjað á mig hræðilegt kvef, sem virðist í allri hegðan nálgast drepsótt. Mig hefur hrjáð gríðarleg vanlíðan með endalausum hóstum og hnerrum, röddin er eins og í öldnum Hafnarstrætisróna og útlítið eftir því. Hjúkrunarfræðingurinn í fjölskyldunni var fjarverandi aðalveikindadagana á námskeiði í endurlífgun og því fjarri góðu gamni, þ. e að hjúkra aldraðri móður og annast um hana. Að vísu skrapp sjúklingurinn hálfan dag í vinnuna meðan á sjúkralegunni stóð til að missa ekki af námskeiði í Bill Gates 2007, þar sem hann hafði fregnað að ekki yrði um endurtekingu á námskeiðinu að ræða - sat á mánskeiðinu í rúma tvo tíma og lærði þrjú atriði, sem mér hafði ekki verið kunnugt um áður og hefði ábyggilega rambað á af tilviljun fyrr eða síðar, svo líklega hefði bara verið betra að liggja heima undir sæng. Að endurlífgungarnámskeiði loknu bauð fulltrúi heimbrigðisstéttanna upp á endurlífgun úr hverju sem er hvenær sem er.
Í veikindunum dragnaðist hin sjúka einnig í verslun til að fylla ísskápinn, sem var frekar skörðóttur og ákvað í leiðinni að hressa upp á líðanina með appelsínusafa. Fyrir valinu var nýkreistur Tropí í lítersflösku. Þegar heim var komið svolgraði maður hinn nýkreista safa í sig og fann fjör streyma um kroppinn. Þegar mér datt í hug að athuga hvenær appelsínurnar hefðu verið kreistar - hvort það hefði verið í samdægurs eða daginn áður - var ekki að finna neinar upplýsingar um það á flöskunni. Aftur á móti var nýkreisti safinn skráður bestur fyrir 14. maí. Hvernig er það verður þessi safi nýkreistur eftir þrjár vikur?
Að vísu er ég búin að drekka allt úr flöskunni, svo ég ætti ekki að gera mér rellu út af þessu, en ég get ekki varist því að hugleiða hversu lengi safinn var búinn að vera nýkreistur þegar ég keypti hann.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 8:37 e.h.




Powered by Blogger