Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, ágúst 11, 2005 :::
 
Hæ,
Eastwood fjölskyldan er komin til landsins. Je minn eini, ég vissi ekki að Clint væri fjölskyldumaður, Ég hélt að hann byggi aleinn í einhverju ömurlegu og grámyglulegu leiguhúsnæði með ósmekklegum húsgagnasamtíningi, þar sem húshjálpin virtist hafa verið í samfelldu sumarfríi frá upphafi, að hann ætti einhverja bíldruslu, sem léti bílana í auglýsingunni frá SP-fjármögnun líta út eins og limósínur, að hann ætti ekki nokkra flík nema í einhverjum muskulitum og að engin þeirra hefði nokkurn tíma komist í tæri við þvottavél eða hreinsun, að hann hefði engin samskipti við kvenfólk nema undarlegar konukindur og að öll þau samskipti væru á vægast sagt furðulegum nótum. Svo er bara mynd af honum framan á DV sem hamingjusömum heimilsföður með eiginkonu og tveim dætrum og eru þær allar miklu fallegri en Clint.
Ég þarf að endurskoða sjónarhorn mitt til bandarískra leikara, hef líklega horft á of margar Dirty Harry myndir, líklega á of margar bandarískar bíómyndir yfirleitt.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:43 e.h.


þriðjudagur, ágúst 09, 2005 :::
 
Hæ,
Mikið um að vera hjá mér í dag. Í vinnunni erum við að prófa nýjan dreifingarhugbúnað á netinu. Útvalinn hópur fékk námskeið frá útlöndum á símafundi fyrir nokkru og nú þegar loks á að þrófa á búnaðinn í alvöru er ég auðvitað búin að gleyma öllu, sem þar sem kennt og sagt. Ég snaraði mér strax í morgun inn á skrifstofu til samstarfsmanns míns, sem er hátt í aldarfjórðungi yngri en ég og á að stjórna aðgerðum í dag, og sagði glaðhlakkalega við hann: “Jæja, nú hefst stakkasundið!” Hann starði á mig furðu lostinn, hafði augljóslega ekki hugmynd um hvað stakkasund er, hefur greinilega ekki verið virkur þátttakandi í hátíðahöldum sjómannadagsins í sínu byggðarlagi, eins og ég í mínu á bernskuárunum, þar sem stakkasund sjómanna í höfninni og sundlaug bæjarins var einn af hápunktum dagsins í mínum augum. Þá breytti ég bara stefnunni í orða- og orðatiltækjavali og sagði: “Þá er komið að frumrauninni með nýja dreifingarhugbúnaðinn.” Þá komst hann inn á mína línu.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:00 e.h.


mánudagur, ágúst 08, 2005 :::
 
Hæ,
Gay Pride búin að hlykkjast niður Laugaveginn, tugir þúsunda mæta í miðbæinn á ári hverju í gönguna til að styðja fólk,sem er inni í skápnum eða komið út úr skápnum, til að styðja við ofsóttan minnihlutahóp. Hvort er um fataskáp eða vínskáp að ræða? Þetta eru ekki ofsóknir af minni hálfu. Bara spyr í fávisku minni.
Ég er komin á sjötugsaldur, er gagnkynhneigð, hef alltaf verið gift sama manninum og á bara börn með einum manni, þ.e. þessum sem ég hef alltaf verið gift. Haldið heimili og unnið úti alla mína hunds- og kattartíð að undanskildum þeim tveim áratugum, sem ég bjó í foreldrahúsum og þeim árum sem ég stundaði nám. Vegna þess að ég var kristilegu hjónabandi og lagði ekki stund á drykkjuskap og eiturlyfjaneyslu var mér ævinlega synjað umsvifalaust um leikskóla- og barnaheimilispláss fyrir börnin mín hér á landi og aldrei fékk ég greitt fæðingarorlof í þau skipti sem ég lagðist á sæng og sá þjóðfélaginu fyrir heilbrigðum einstaklingi og lagði mitt af mörkum til fólksfjölgunarinnar hér á landi, á Vesturlöndum og í heiminum öllum, en í þessu síðasta tilfelli var auðvitað verið að bera í bakkafullan lækinn. Greiddur var fæðingarstyrkur frá ríkinu, sem rétt dugði fyrir vistinni á fæðingardeildinni. Landsfeðurnir sáu til þess að fæðingarorlof komst ekki almennt á fyrr en útséð var um að ég myndi eignast fleiri börn og ég greiddi alla tíð svimandi háar upphæðir fyrir einkagæslu hjá dagmæðrum..
Ég hef alltaf talið mig mjög normal konu, en allt í einu átta ég mig á því að ég tilheyri minnihlutahópi í þjóðfélaginu. Hvað skyldu vera margar konur með sömu forsögu og ég? Minnihlutahópurinn minn er er líklega frekar fámennur og lítt litskrúðugur.
Og þá væri gaman að fá svar við þeirri spurningu sem nú brennur mér á vörum.
Myndi einhver mæta í göngu niður Laugaveginn mér til stuðnings og upplyftingar? Líklega myndi ég ein fá að rölta niður á Lækjartorg – í mesta lagi með nokkrar konukindur í eftirdragi, sem eins er ástatt fyrir. Fjölmiðlar myndu varla hafa fyrir því að senda fulltrúa sinn á vettvang. Það er nefnilega ekkert spennandi eða heillandi við að vera normal.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:41 e.h.


 
Hæ,
Tekjublaðið komið út og sennilega búið að ergja margan, bæði þá, sem eru tíundaðir í Tekjublaðinu og líka hina sem ekki komust þangað og eiga aldrei möguleika á að fá nafnið sitt birt þar. Þeir sem voru nálægt því að komast á blað, en náðu ekki inn, eru sennilegast mjög þakklátir og ánægðir yfir því að hafa ekki komist í gegnum nálaraugað. Það hlýtur vissulega að vera erfitt að finna öfundarþel þeirra sem minna fá í launaumslagið og upplifa pirring á vinnustað vegna launamismunar. En tekjurnar hljóta að bæta þeim ólánsömu einstaklingum, sem lenda í Tekjublaðinu, upp afbrýðina og öfundina, sem þeir verða fyrir frá samborgurum sínum. Þeir hafa þó alla vega efni á að kaupa sér miða til útlanda og láta sig hverfa meðan mesti æsingurinn í þjóðfélaginu líður hjá eða þar til litlu launþegarnir hafa steingleymt hversu margar milljónir forstjórinn þeirra þiggur í laun fyrir létta og þægilega innivinnu.

20 milljónir og 400.000 þúsund í laun á mánuði
Leikrit í einum þætti, byggt á sannsögulegum atburðum.
Leikritið gerist í bankastofnun á höfuðborgarsvæðinu.
Gjaldkeri 1: Hvað finnst ykkur um þennan sem er með 20 milljónir í laun á mánuði?
Gjaldkeri 2: Gleymdu ekki þessum fjögur hundruð þúsundum!
Gjaldkeri 3: Ég væri alveg hæstánægð með þessi fjögur hundruð þúsund á mánuði.
Endir

Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:16 e.h.




Powered by Blogger