Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júní 20, 2005 :::
 
Hæ,
Forsætisráðherra flutti ávarp á Austurvelli í skínandi blíðu á þjóðhátíðardegi landsins, 17.júní. Það leið yfir sjö manns meðan hann talaði. Ekki er ég hissa á því. Ég skrúfa alltaf fyrir hann þegar hann kemst inn í stofu til mín, sem er auðvitað bara á öldum ljósvakans vegna þess að mér finnst hann ekki hafa nógu upplífgandi áhrif á mig og skapið frekar síga niður en upp, meðan á ræðuhöldum hans stendur og eftir þau.
Sá fyrsti sem hneig niður undir ræðu Halldórs var einn af þeim útvöldu skátum, sem fá að standa á Austurvelli í öllum herklæðum með þjóðfána, skátahatt og alla skátahnútana meðan þjóðhátíðin er sett . Ég hefði haldið að skátarnir hefðu gegnum útilegur og þrekraunir orðið sér úti um úthald, styrk og þol til að standa af sér ýmislegt mótlæti og erfiðleika. Kannske eru skátarnir hér sunnanlands eitthvað deigari og úthaldsminni en skátarnir voru fyrir norðan í gamla daga. Aldrei hefði Tryggvi Þorsteinsson skátaforingi á Akureyri leyft nokkrum úr sínu liði að hníga í yfirlið á þjóðhátíðardaginn. Og aldrei hefðu nokkur í hans liði vogað sér svo mikið sem að kikna í hnjánum þótt í harðbakkann slægi. Augnaráð Tryggva eitt saman hefði nægt til að halda heilli skátahersveit uppréttri svo klukkustundum skipti.
Nú verða skátarnir að bæta einni æfingu enn við þrekraunir skáta sem þeir iðka við varðeldinn. Að standa á fótunum gegnum ávarp forsætisráðherra.
En forsætisráðhera lét nokkur yfirlið ekki á sig fá, heldur var í besta skapi, enda ekki ástæða til annars, þar sem hann og hans fjölskylda höfðu ekki skaðast við sölu Búnaðarbankans. Hann boðaði í þjóðhátíðarræðunni, að stórfyrirtæki og fjármagnseigendur skyldu leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það þýddi ekkert að vera að græða eingöngu fyrir sjálfan sig. Þessir aðilar skyldu leggja fram fé til menningar og lista, til sjúkra og þjáðra. Hann gleymdi alveg að þakka Baugi Group og fleirum fyrir fjármögnun Grímu-hátíðarinnar, sem haldin var kvöldið áður í Þjóðleikhúsinu, þar sem hann kom sjálfur fram og lék í leikþætti með formanni Bandalags íslenskra listamanna og verð ég að segja að mér fannst frammistaða hans á sviði Þjóðleikhússins ekki nógu trúverðug fremur en á sviði Alþingis.
Forsetinn veitti orður þann sama dag, náttúrulega aðallega karlmönnum, sem hafa unnið það þrekvirði að mæta til vinnu nokkuð stundvíslega í áratugi og fengið greitt fyrir. Meira að segja fékk strákhvolpur orðu yfir að sparka bolta í útlöndum og þiggja svimandi upphæðir fyrir, sem hann hefur m.a. eytt í spilakassa og annan óþarfa. Eru menn komnir í vandræði með að finna verðuga orðuhafa?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:50 e.h.




Powered by Blogger