Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, júní 30, 2006 :::
 
Hæ,
Stundum rætast óskir manns bara bókstaflega. Þegar sólin skein sem skærast um hádegisbilið í núna í vikunni stóð ég við súluna á mínu vinnusvæði og hugsaði með mér að ekki væri amalegt að geta yfirgefið vinnusvæðið og spókað sig í góða veðrinu. Varla hafði ég bægt hugsuninni frá mér þegar skemmtanastjóri kanínubúsins kom aðvífandi með þaulreyndan rafvirkja sér við hlið og spurði mig hvort mér væri ekki sama þótt ég yfirgæfi staðinn áður en lögbundnum vinnudegi lyki, þar sem þeir þyrftu að fella súluna mína. Það þyrfti að lagfæra hana lítils háttar og bæta í hana tengingum. Ég þóttist auðvitað vera pínutreg til að leggja niður vinnu - rétt svona til að vinna mig enn betur í áliti, en lét tilleiðast og yfirgaf súluna mína. Svo fór ég í bæinn og eyddi peningum í mörgum tískuvöruverslunum.
Nú er súlan mín í fullu gildi, aukin og endurbætt. Þar að auki er grillveisla á kanínubúinu í dag. Það er búið að koma fyrir fjögurra metra löngu grilli á kanínuflötinni þar sem logar vel. Vonandi hafa kanínurnar haft vit á að forða sér vegna þess að hér er fólk, sem vill losna við þær og hafði í hótunum um að steikja þær lifandi. Ég er hrædd um að hutabréfin myndu lækka ef þær lentu á grillinu. Ég sit aftur á móti í pásu við súluna og háma í mig ljúffengan hamborgara við harmonikkuleik og fagnaðarlæti starfsmanna sem keppa í kanínuleikum við nágrannafyrirtæki, sem er eitt af uppáhaldsbörnum þjóðarinnar. Uppáhaldsbarn þjóðarinnar er að tapa en kanínubúið, óskabarnabarn þjóðarinnar, stendur sig með prýði, rakar saman stigum og er að mala uppáhaldsbarnið í neftóbak. Ég bíð eftir að röðin komi að mér að keppa í súlunotkun. Þá fyrst bætast stigin við!
Svona getur lífið verið ljúft.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:05 e.h.




Powered by Blogger