Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júlí 18, 2005 :::
 
Hæ,
Það er alltaf verið að reyna að fá fólk til að keyra af skynsemi og með mikilli gát, svo ekki sé talað um að keyra ódrukkið. T.d. er oft verið að sýna auglýsingar í sjónvarpi, þar sem talað er um að gestgjafar eigi að gæta þess að gestir þeirra keyri ekki heim eftir að hafa úðað í sig veislumat og sporðrennt nokkrum glösum af léttu víni og bjór með. Ég segi fyrir mig að mér finnst einhver samtök úti í bæ og vínbúðir ekki geta lagt neinar lögguskyldur á herðar fólki, sem hefur álpast inn í ríkið og keypt öl og vín í þeirri trú að það væri til að gleðja eigið hjarta og annarra.. Ekki nenni ég að skipta mér af því hver keyrir fullur og hver keyrir ófullur heim, hver tekur leigubíl og hver gengur heim. Það er bara ekki í mínum verkahring að gæta kúnna vínbúðanna. Gæti hugsast að eigendur vínbúanna hafi áhyggjur af því að fólk hætti að drekka í eitt skipti fyrir öll, ef það verður gómað undir áhrifum - láti sér slíkt að kenningu verða. Þar með missa vínbúðirnar spón úr aski sínum. Mér finnst eitthvert skítabragð af þessum auglýsingum þeirra.
Ég man ekki hvort vínbúðirnar stóðu fyrir flennistórum auglýsingaborðum, sem strengdir voru yfir fjölfarnar umferðagötur nýlega. Ég var í mesta sakleysi að keyra alveg bláedrú eftir nýju breiðstræti í höfuðborginni á hæsta löglega hraða, þegar við mér blasti líksvört áletrun á hvítum borða, þar sem spurt var rétt si svona: “Ert þú á hraðferð í þína eigin jarðarför?” Ferðinni var alls ekki heitið þangað, enda hef ég alltaf talið mig ódauðlega, ávallt verið þess fullviss að guðirnir hafi gefið mér eilíft líf og ekki gleymt að gefa mér eilífa æsku í leiðinni. Mér brá svo harkalega við þessa miður smekklegu auglýsingu að ég var næstum búin að keyra inn í hliðina á glænýrri og fagurbónaðri glæsikerru upp á svo sem hálfan tug milljóna króna, sem augljóslega var fjármögnuð með 100% lánum frá einhverju bílalánafyrirtæki. Inni í bílnum sat barnafjölskylda, sem var ábyggilega ekki búin að greiða eina einustu afborgun af bílaláninu. En snarræði beggja varð til þess að ég lenti ekki hjá líkkistusmiðnum í þetta skipti. Ég hafði líka alltaf hugsað mér að láta keyra mig hægt og virðulega í eigin jarðarför, ef svo ólíklega færi að ég tæki upp á því að deyja einn daginn.
Ekki veit ég hvort ungur nágranni minn hefur teygað úr nokkrum léttvínsglösum eða fengið sér sterkari gleði- og vímugjafa í leit sinni að skemmtan og lífsfyllingu. Drengur þessi hefur ekki hugmynd um, hvort er kvöld eða morgunn, dagur eða nótt, virkur dagur eða helgidagur, hvort halda skal hátíð eða halda til brauðstrits. Hjá honum glymur samfelld tónlist, pizzusendlar koma færandi hendi á hvaða tíma sólarhringsins sem er og hann heimsækja gestir af slíku tagi, að fæstir vilja hafa eitthvað saman við þá að sælda. Þessi sífellda tilraun til að skemmta sér virðist ekki færa honum lífsgleði og birtu. Það skín hvorki gleði né ánægja úr svip þessa unga manns, aðeins myrkur og vonleysi. Hann forðast nágrannana, horfir ekki í augu þeirra og oft dettur mér í hug að hér sé á ferð gangandi auglýsing fyrir vínbúðir og vímuefnasala.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:40 e.h.




Powered by Blogger