Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, júní 05, 2008 :::
 
Hæ,
Í gær var ég í mesta makindaleysi inni á baði að horfa á spegilmynd mina og dást að henni. Enda er ég svo upptekin af sjálfri mér og spegilmynd minni að jarðskjálftinn, sem reið yfir nú á dögunum og hristi allt og skók, fór algerlega fram hjá mér. En það er önnur saga.
Sem ég stend fyrir framan spegilinn, ryðst inn um gluggann ægilegt óargadýr, geitungur á stærð við barnshöfuð, sem fór að hringsnúast um höfuðið á mér, svo ég komst ekki hjá því að sjá hann. Ég rak upp skaðræðisóp, svo heyrðist um nærliggjandi hverfi, rauk fram og skellti hurðinni á eftir mér og skildi hinn óboðna gest eftir við klósettið.
Þegar minn ektamaki spurði hvað gengi eiginlega á, gat ég ekki sagt sem var - að ég væri argandi að skelfingu út af einum fluguræfli, sem væri minni en stóra táin á mér.
Ég brosti bara kæruleysislega og sagði: "Það er ísbjörn inni á baði."
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:13 e.h.




Powered by Blogger