Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, febrúar 15, 2008 :::
 
Hæ,
Mikið hefur gengið á í þjóðfélaginu upp á síðkastið, svo mikið að það má segja að sé verið að bera í bakkafullan lækinn með því að senda frá sér hugleiðingar um ástandið og ólíklegt að nokkur maður megi vera að því að lesa slíkt eða nenni því yfirleitt, þar sem svo hefur flætt undanfarnar vikur að út af flóir.
Samt get ég ekki stillt mig og er kannske á seinni skipunum með pistil um ástandið í borgarmálum. Það má segja að Spaugstofan hafi verið óþörf og fyndni hennar hafi algerlega fallið í skuggann fyrir hinum ofurfarsakennda raunveruleika. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru farnir að gægjast út úr skápnum, sem þeir lokuðu sig inni í í örvæntingarfullum feluleik við fjölmiðlana og kjósendur og eigin samherja. Bara rétt byrjaðir að gægjast út – mjög varlega - og gæta þess að hleypa engum að sér, tala helst ekki við neinn og svara sem minnstu – og ef er svarað - þá svara þeir út í silfurtungl.
Ég bara spyr: Hver borgar þessu liði launin? Ég hélt að borgarfulltrúar þægju sín laun beint frá okkur skattgreiðendum og kjósendum og það hefði hvorki verið á stefnuskrá frambjóðenda né kjósenda, að réttkjörnir fulltrúar hlypu í felur svo dögum skipti og svöruðu ekki spurningum, sem þeim er skylt að svara, inntu ekki starf sitt af hendi. Með feluleiknum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins aukið vandræði flokksins svo um munar og er furðulegt að hlusta á fjölmiðlana greina frá því að ekki hafi náðst í heilan borgarstjórnarflokk í marga daga.
Þá hélt ég að steininn hefði tekið úr þegar Vilhjálmur Þonn klökknaði í viðtali, setti upp skeifu og beygði af eins og krakki, sem hefur týnt mömmu sinni í verslunarmiðstöð, þannig að við lá að fréttamenn þyrftu að þurrka honum í framan og snýta honum á staðnum. En hann átti eftir að ganga alveg fram af mér bæði þegar hann ræddi um samskipti sín við einhvern óskilgreindan borgarlögmann í Kastljósi og svo aftur þegar hann mætti á blaðamannafundinn í Valhöll, gerði fjölmiðlum mishátt undir höfði og sat þvaðrandi og blaðrandi um að hann hefði gert mistök, sem hann sæi rosalega eftir, en þyrfti smá svigrún til að skoða sinn gang og allir í hans flokki stæðu á bak við hann. Ekki var samstaðan meiri en svo, að hinir borgarfulltrúarnir laumuðust í burtu í og héldu áfram að fela sig vel og vandlega inni í skáp. Vilhjálmur Þonn sat aleinn og yfirgefinn fyrir framan fjölmiðla honum þóknanlega og volaði framan í áhorfendur, sem flestir hverjir höfðu átt von á því að hann myndi sjá sóma sinn í að hætta í borgarstjórn og hlífa almenningi við að horfa upp á hann verða sér enn einu sinni til skammar.
Eitt af þeim gullkornum, sem hafa hrotið af vörum Vilhjálms Þonn við myndun nýjasta meirihluta borgarstjórnar, er á þá leið að Ólafur Eff ætti að fá að spreyta sig á borgarstjóraembættinu. Er um að ræða embætti sem Vilhjálmur Þonn getur úthlutað til þeirra sem hafa áhuga á að takast á við starfið, bara svona rétt til að athuga hvernig þeim líkar jobbið og hvort keðjan passar við outfittið? Allur sá trúðsleikur, sem átt hefur sér stað í borgarstjórn undanfarið, er tilkominn af því að sjálfstæðismenn telja sig eiga borgarstjóraembættið í Reykjavík og hafa aldrei jafnað sig á því að R-listinn náði völdum í borginni og stjórnaði henni með ágætum um tólf ára skeið eftir langa valdasetu Sjálfstæðisflokksins. Og þvílíkt stórslys að vinstri menn skyldu ná meirihluta skyndilega einn eftirmiddag og gera Dag að borgarstjóra meðan borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins stóð hreinlega andvaralaus og boraði i nefið á sér. Allt skal nú gert til að ná völdum - meira segja að láta Ólaf Eff spreyta sig á borgarstjóraembættinu!
Þá get ég ekki stillt mig um að koma á framfæri einni af mínum fjölmörgu skoðunum, sem er sú, að þeir sem bjóða sig fram til opinberra starfa, verða að hafa húmor fyrir sjálfum sér og hafi þeir ekki þann kost til að bera, verða þeir að þykjast hafa húmor fyrir sjálfum sér. Ef Ólafur Eff hefði að afloknu gríni Spaugstofunnar haft vit og skynsemi til að bera til að standa keikur og segja, að þetta hefði bara verið virkilega smellið grín, bæði handrit og leikur hefði verið fyrsta flokks og hann hefði skemmt sér manna best þetta laugardagskvöld, þegar hann var tekinn fyrir, hefði það breytt ímynd hans verulega til batnaðar í augum borgarbúa og þjóðarinnar allrar og losað hann sjálfan við endalausa háðung og niðurlægingu. Það þolir enginn ráðamenn, sem væla og skæla að aflokinni Spaugstofunni og áramótaskaupinu, tala um að þeir séu lagðir i einelti og níðst á þeim. Slíkir menn eru bara hlægilegir og upplagt að gera gys að þeim, þar sem þá vantar það sjálfstraust og æðruleysi sem foringjar verða að hafa til að bera. Ráðamenn eiga að bera með sér að þeir hafi nógu breitt bak til að láta hlæja að sér. Það á að lýsa af þeim: “Þið megið gera grín að mér eins og þið viljið, þið megið hlæja að mér eins og þið viljið. Mér er alveg hjartanlega sama!”
Kjósendur vilja fulltrúa með sjálfsvirðingu og reisn - ekki kjökrandi hugleysingja og vælukjóa.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:55 e.h.




Powered by Blogger