Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, september 04, 2007 :::
 
Hæ,
Ég kom í bakarí um daginn í þeim göfuga tilgangi að sækja nokkra hitaeiningar til að setja á borð fyrir nokkra fjölskyldumeðlimi, en auðvitað sérstaklega fyrir sjálfa mig. Það var múgur og margmenni að versla í bakaríinu og á bak við búðarborðið voru fimm ungmenni, fjórar stúlkur og einn karlmaður, að rétta kruðeríið yfir til viðskiptavinanna í réttri númeraröð. Áberandi auglýsing var fest á afgreiðsluborðið þess efnis að viðskiptavinir væru beðnir að tala ekki í farsíma meðan á afgreiðslu stæði, þar sem slíkt væri truflun. Það verður segja kúnnahópnum til hróss að menn stilltu sig um slíkt a.m.k. þá stund, sem ég beið og átti viðskipti við fyrirtækið. Aftur á móti átti sér stað fjörleg frásögn og umræður innan við diskinn um viðburði undanfarins kvölds og nætur og það verður að segjast að það truflaði afgreiðsluna verulega, þar sem gærkvöldið og nóttin höfðu greinlega verið afar viðburðarík og mikið af litríkum og heillandi persónuleikum komið þar við sögu.
Það er spurning hvort ég ætti að fara fram á að búið sé til annað spjald þar sem farið er fram á að afgreiðslufólkið reyni að hemja sig fyrir framan blásaklausa kúnna, sem ekki kunna við að flýja á náðir farsímans til að sleppa við að hlusta á mergjaðar reynslusögur af næturlífinu í höfuðborginni.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:55 e.h.




Powered by Blogger