Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, apríl 14, 2007 :::
 
Hæ,
ég ætla í upphafi að taka fram til að fyrirbyggja allan misskilning að ég er síður en svo hlynnt Kaupþingi, þótt ég sé dyggur viðskiptavinur bankans. Það er ekki af trúmennsku og hollustu, sem ég læt alla fjármuni mína renna þar í gegn. heldur af því að ég sit uppi með þennan banka. Ég byrjaði að skipta við allt annan banka í upphafi, en það er auðvitað allt önnur saga.
Ég heyrði í fréttunum í gær að Norska fjármálaeftirlitið væri andsnúið því að Kaupþing keypti sér tryggingafélag þar í landi og ein rökin voru þau að Kaupþing hefði hvorki reynslu og þekkingu til að reka tryggingafélag. Það vildi einmitt svo til að ég var að hugsa um að kaupa mér svo sem eins og eitt stykki tryggingafélag nýlega og kom þá upp í huga mér sú staðreynd að ég hefði lítið til brunns að bera til að sjá um reksturinn. En mér kom jafnskjótt í hug ráð til að ráða bót á þeim vandkvæðum. Ég ákvað að ráða fólk með sérþekkingu og kunnáttu til að stjórna slíkum rekstri, halda góðu starfsfólki tryggingafyrirtækisins og reka þá lélegu. Svo mætti lofa bónusgreiðslum og ýmsum sporslum til að halda starfsfólkinu við efnið. Ef illa árar er ekkert nema hækka iðgjöldin. Ég hefði haldið að þetta væri bara ágætis leið til að reka tryggingafélag. Þessi draumur minn strandaði á því að mánaðarlaunin mín hrukku ekki fyrir fyrstu afborgun af tryggingafélaginu og Kaupþing vildi ekki lána mér fyrir því sem upp á vantaði.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:45 f.h.


fimmtudagur, apríl 12, 2007 :::
 
Hæ,
Leikþáttur í þrem atriðum:
Hjónin sitja við kvöldverðarborðið. Fréttalestri er að ljúka á Stöð 2.
Eiginkonan: "Langar þig að sjá Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu?"
Eiginmaðurinn: "Nei."
Eiginkonan: "En Cavalleria Rusticana í Íslensku óperunni?"
Eiginmaðurinn: "Nei."
Eiginkonan: "En Laddi sextugur?
Eiginmaðurinn: "Nei."
Löng þögn. Eiginkonan fer að taka af borðinu og ganga frá, en eiginmaðurinn sest í beina sjónlínu við sjónvarpið og bíður þess að fréttalestur hefjist á RUV á slaginu sjö.
Fréttalestur hefst. Í fréttum er það sama og venjulega. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar á þönum klippandi borða og klappandi krökkum að afhenda kosningaloforð um land allt.
Eiginkonan: "Ég gleymdi að spyrja þig hvort þig langaði að sjá "Eilíf hamingja" í Borgarleikhúsinu."
Ekkert svar enda stendur fréttalestur yfir.
Tuttugu mínútur líða.
Eiginkonan: "Það er greinilegt að við getum sparað stórfé á þessum leikhúsferðum. Það þarf ekki að kaupa nema fjóra miða í stað þess að kaupa átta."
Eiginmaðurinn: "Varstu að segja eitthvað?"
Eiginkonan: "Nei."
Tjaldið fellur.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:10 e.h.




Powered by Blogger