Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, desember 02, 2004 :::
 
Hæ,
Það gekk ekki lítið á í Kastljósi í gær. Það var greinilegt að stórsöngvarinn var síður en svo í góðu jafnvægi og sennilega með talsvert blettótta samvisku, þar sem þjóðin hafði komist að því að í hans hlut féll dágóð peningaupphæð fyrir að syngja ókeypis til styrktar krabbameinssjúkum börnum, svo sem eins og árslaun þeirra allra lægst launuðu í þjóðfélaginu ef miðað er við 700 þúsund. Nú er líka talað um að hann hafi fengið 2 milljónir fyrir elskulegheitin. Stórsöngvarinn var alveg að tapa sér vegna framkomu Kastljósstúlkunnar, sem gerði lítið annað en benda á svimandi mismun á launatölum, taldi hana bersynduga og hreytti fúkyrðum og svívirðingum í átt til hennar, kvað hana eina hér á landi gagnrýna göfugmennsku hans og kunna ekki að meta umfangsmikið framlag hans til líknarmála.
Það er ágætis bragð að nota veik börn og fatlað fólk til að auglýsa upp tónleika og hala inn peninga handa stórstjörnum. Kannske má félagið til styrktar krabbameinssjúkum börnum vel við una að fá í sinn hlut þann ágóða sem eftir stendur – 10 – 25%, en þeir sem kaupa sig inn á slíkar skemmtanir eru aftur á móti svo fávísir að halda, að allur aðgangeyririnn renni til fársjúkra barna, að hver króna sem inn kemur fari til að létta þeim og fjölskyldum þeirra það harða stríð sem háð er við sjúkdóm og dauða.
Ég er fyrir löngu búin að komast að því að þeir sem safna peningum til líknarmála gera það fæstir frítt og ekki í sjálfboðavinnu. Allri fjársöfnun og tónleikahaldi fylgir gífurlegur kostnaður þótt einhverjir gefi vinnu sína. Svo er greinilega hægt að fara kringum hlutina, taka greiðslu fyrir ferðakostnaði og uppihaldi og þá er um að gera að gera ráð fyrir Saga-business, fimm stjörnu hóteli og limmósínum.
Mér finnst mjög eðlilegt að listafólk og aðrir gefi vinnu sína þegar um líknarmála er að ræða og jafnvel í lagi að taka fyrir beinum kostnaði eftir aðstæðum og ef hann er verulegur, en er ekki kostnaður farinn nokkuð úr hófi þegar fólk tekur 400 þúsund fyrir að koma ofan úr Mosfellssveit, syngja til styrktar veikum börnum og fá klapp á bakið, eða frá Ítalíu til að hirða hátt í eina eða tvær milljónir fyrir og láta útvarpa því fram og til baka að öll vinna við fyrirtækið hafi verið gefin?
Engar nýjar fréttir fyrir mig að aðrir en dauðsjúk börn og fatlaðir aumingjar njóti teknanna af einhverjum gala-skemmtunum, en aftur á móti fyrirvarð ég mig mjög fyrir Kidda Konn í gærkvöldi og fannst hann alveg fara með sig í Kastljósinu. Mér varð á orði að ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa átt heima í sama kaupstað og hann.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:14 e.h.


miðvikudagur, desember 01, 2004 :::
 
Hæ,
Ég þori ekki lengur að borða nautakjöt út af þeim vinum Kreutzfeld og Jakob.
Þori engan veginn að borða kjúkling vegna fuglainflúensu.
Ég þori ekki að borða svínakjöt, ég er svo hrædd um að litlu grísirnir fái fuglainfúensu.
Ég þori alls ekki að borða egg vegna salmonellusýkingar.
Ég voga mér ekki að borða fisk vegna þungmálma í vatni og sjó.
Þori ekki fyrir nokkurn mun að borða ávexti og grænmeti vegna skordýraeiturs, illgresiseyðis og áburðar.
Þá er eiginlega bara súkkulaði eftir... og ég get fengið mér stóran bita án þess að vera þjökuð af samviskubiti.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:23 e.h.


 
Hæ,
Ég hitti nýlega meistara í flísalögnum, sem stundi og púaði vegna annríkis fyrir jólin og vegna frekju og tilætlunarsemi viðskiptavina, sem vilja fá allt gert núna. Til hans hafði hringt kona nokkur, sem vildi fá baðherbergi flísalagt í hólf og gólf fyrir jólin, mynsturlagt með forláta sérpöntuðum flísum. Hann kom henni ekki inn á vinnuáætlunina því miður, en var ekkert sérlega miður sín, því að hún er með tvö fullbúin og flísalögð baðherbergi í húsinu sínu í vinsælli götu í hverfi 101. Hún stundi og kveinaði og sagði að nú yrðu engin jól hjá sér og gaf í skyn að hann einn bæri sökina á því. Það mætti kannske spyrja hana, hvort Jesúbarnið gæti ekki notað annað hvort hinna baðherbergjanna, EF það kæmi því við að líta inn hjá henni. Mér finnst líklegt að hún sé frekar aftarlega á heimsóknarlista jólabarnsins.
Guðni Ágústsson var nýlega fluttur á spítala eftir að hafa lýst yfir að hann hefði verið kvalinn eins og hann væri að ala barn. Greinilegt að hann veit allt um það. Skyldi hann hafa verið lagður inn á Fæðingardeildina? Skyldi hann hafa alið 12 metra SS-pylsu?
Hann er með þessu búinn að sjá Spaugstofunni, höfundum áramótaskaupsins og þó nokkrum bloggurum fyrir skemmtiefni.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:20 e.h.


mánudagur, nóvember 29, 2004 :::
 
Hæ,
Ég var að skoða blogghringinn og komst að því að flestir fjölskyldubloggararnir eru orðnir frekar latir í blogginu. Jóhanna og Hildigunnur hafa bloggað. Jóhanna er m.a.s. komin með flotta heimasíðu- til lukku Giovanna - Einar Bjarni bloggar á hafinu - sæbloggari - og Friðgeir -ofurbloggari - setur atvinnu- og flutningsfréttir á sína síðu.
Ég held ótrauð áfram, þótt ekki sé bloggað daglega. Ég er að hugleiða að sækja um listamannalaun til að halda bloggsíðunni minni gangandi og hef afar góða von um að lenda nokkuð ofarlega í úthlutuninni, að fá eins og þriggja ára laun. Ég get ekki ímyndað mér annað, en það gangi eins og að drekka rjóma. Annað eins hneyksli hefur nú átt sér stað í úthlutun. Alþingi sendir mér ábyggilega listamannalaunin beint heim skilvíslega.
Og það má heita að ég sé farin að bíða eftir fyrsta umslagi með listamannalaununum. Þegar það kemur í póstkassann, verður fyrsti umgangur kvöldsins á hverfiskránni í mínu boði. Að vísu á ég eftir að sækja um, en ætli það sé ekki bara formsatriði? Ég er svo afskaplega bjartsýn að eðlisfari, að mér finnst t.d. á hverju ári ekkert ólíklegt að ég verði valin Kona ársins í einhverju lífi eða Maður ársins á Rás2. Samt hef ég aldrei hringt og stungið upp á sjálfri mér: Væri það ekki byrjunin?
Annars er ég í góðum málum, búin að setja upp aðventukransana, koma öðrum fyrir á sófaborðinu og hinum á hliðarborðinu. Annar er allur hvítur og gylltur, hinn er svartur rauður og gylltur. Vala Matt hlýtur að fara að hringja og biðja um leyfi til að sýna alþjóð þessa einstaklega heimilislegu aðentukransa. Annars skilst mér að jólaliturinn í ár sé fjólublár og jafnvel bleikur, þannig að mínir kransar eru sennilega ekki inn þetta árið. Skítt með það, þeir komast einhvern tíma aftur í tísku og fjólublátt, blátt eða bleikt á jólum skiptir ekki máli. Það er hátíðleikinn sem gildir, hátíðleikinn, þegar búið er að tendra ljósið á margra ára gömlum krönsum, sem taka engum breytingum, krönsum, sem ótal minningar og hugsanir eru bundnar við.
Það logaði á einu kerti á hvorum kransi allan seinnipartinn í gær og fram á nótt. Það var ekki slökkt fyrr en við hjónin vorum búin að horfa á Krónikuna, Octopussy og fleira uppbyggilegt í sjónvarpinu. Þá voru báðir kransarnir settir upp á mannhæðarháan skáp til að forða þeim frá hnjaski af hálfu gesta, sem von var á um áttaleytið í morgun.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:48 e.h.




Powered by Blogger