Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, maí 31, 2007 :::
 
Hæ,
Nýlega heyrði ég í fréttum að halda ætti ráðstefnu um kvótasvindl og kvótasvik. Ég varð alveg afskaplega ánægð með þetta framtak. Svo kom í ljós að mér hafði misheyrst. Um var að ræða ráðstefnu um bótasvik og svindl bótaþega. Það hlaut að vera, vegna þess að stuðningsmenn kvótakerfisins bera ævinlega allar fréttir um kvótasvindl og brask til baka af mikilli einurð og staðfestu, þótt hvert byggðarlagið af öðru verði harkalega fyrir barðinu á kvótakerfinu þegar þau eru svipt öllum atvinnutækifærum rétt si svona, þannig að ekki virðist nokkur ástæða til að ræða slíkt á einhverjum ráðstefnuvettvangi. Ég er þó viss um að bótasvik eru aðeins smábrot af kvótasvindlinu og algerir smámunir hjá því og mætti leysa þau mál á einfaldan hátt hjá Tryggingastofnun og landlæknisembættinu.
Svo kom í fréttum að Sjóvá býðst til að reisa nýja álmu við Grensásdeild, býðst til að hafa forystu um fjármögnun og leggja fram nokkra tugi milljóna í styrk til verksins. Mér finnst Sjóvá bara geta gefið samfélaginu fullkomna deild, sem annar öllum verkefnum á sviði endurhæfingar, vegna þess að þar á bæ hafa menn grætt meira en nóg á tryggingunum. Almenningur greiðir miklu hærri tryggingar en sanngjarnt er og tryggingafélögin lúra á stórum sjóðum. Sjóvá getur bara skilað þessum peningum til ríkisins fyrir hönd okkar, sem greiðum iðgjöldin möglunarlaust. Hagnaður félagsins nam rétt um 12 milljörðum króna fyrir árið 2006 og svo kemur þetta lið eins og göfugmennskan uppmáluð og býðst til að styrkja vegagerð og byggingu endurhæfingardeildar fyrir fé, sem fyrirtækið hefur tekið úr mínum og þínum vasa.
Eins var sagt frá því í fréttum, að tveir læknar hefðu ekki fyrir svo löngu skrifað upp á vottorð, þar sem staðfest var, að einstaklingur hefði fyrir einu og hálfu ári verið ófær um að taka réttar ákvarðarnir við hræðilegar aðstæður. Hvernig er hægt að skrifa upp á slíkt vottorð án þess að skoða viðkomandi á vettvangi, hvernig er hægt að staðfesta slíkt ásigkomulag að svo löngum tíma liðnum? Furðulegt! En það er annað sem angrar mig miklu meira í þessu tilfelli. Hvernig stendur á því að blaðamenn hafa ekki opnað umræðu um þetta atriði? Hvers vegna skoða þeir þetta mál ekki á gagnrýninn hátt og kalla lærða og leika til að fjalla um málið?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:49 e.h.




Powered by Blogger