Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, nóvember 25, 2005 :::
 
Hæ,
Ég fæ sífellt alls konar kostaboð í tölvupósti, t.d. frá heildsölum, sem bjóða jólainnkaup, veitingahúsum, sem bjóða jólahlaðborð, ferðaskrifstofum sem bjóða ferðir út um allar trissur og hvers kyns lúxus í ofanálag, frá bóksölum, úrsmiðum og viagraframleiðendum, svo eitthvað sé nefnt, en þetta er aðeins lítið brot af þeim gylliboðum, sem mér berast. Hótelkeðja nokkur sendi mér póst nýlega og bauð mér til kalkúnaveislu og gistingar, en þar fylgdi böggull skammrifi – ég átti að borga fyrir dýrðina, en fékk verulegan afslátt af skemmtipakkanum. Þegar þetta boð barst mér þaut í gegnum huga minn sú hugsun að ég gerði aldrei neitt skemmtilegt og notaði mér ekkert af öllum þeim heimsins lystisemdum, sem hægt er að njóta sé maður tilbúinn að greiða fyrir þær – annað hvort fullu verði eða á tilboði.
Þessar hugsanir voru mér ofarlega í huga þegar ég ásamt mínum betri helmingi fór í Smáralindina nýlega. Þegar við höfðum lokið erindi okkar, var sem minn betri helmingur hefði lesið hugsanir mínar, því hann stakk upp á því að við fengjum okkur tesopa og grænmetisböku - sem á okkar tungu þýðir létt og loftkennd marensstríðsterta með miklu af rjóma, ávöxtum og súkkulaði -og færum á kaffihúsið, þið vitið þar sem sífellt hrynur niður ryk og drulla af svölunum. Ég var ekki sein á mér að samþykkja þetta kostaboð og við settumst niður og fengum okkur te, en ekki var boðið upp á grænmetisböku að okkar hætti þennan daginn, svo meðlætið var hollustukaka og smurt brauð.
Mikið var ég glöð og hamingjusöm yfir því að vera loksins að gera eitthvað skemmtilegt og njóta lífsins. Annað mál er að brauðið var svona í meðallagi og teið var moðvolgt. Aldrei leyfi ég mér að bera fram te með þessu hitastigi og er það þó serverað frítt hjá mér og minn heimabakstur og smörrebröd er öllu bragðbetra og girnilegra en baksturinn í Smáralindinni. Kannske ég ætti að fara að komast að þeirri niðurstöðu á gamals aldri að kostaboð og lokkandi auglýsingar eru lítið annað en plat og hégómi. Þar fyrir utan verð ég að játa að á þessari stundu mundi ég ekkert eftir því að ég var nýkomin heim úr skemmtireisu á Dónárbakka til Magyar-leggsins í fjölskyldunni, þannig að það var hrein og bein ímyndun í mér að dásemdir heimsins sniðgangi mig
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:39 e.h.


fimmtudagur, nóvember 24, 2005 :::
 
Hæ,
Nei, ég er ekkert hætt að blogga, var bara að athuga hvort einhver hefði áhuga á síðunni minni. Eins og sjá má af ofsafengnum viðbrögðum og undirtektum örvæntingarfullra lesenda kemur ekki til greina að ég gefi blogg-skrifin upp á bátinn.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:46 f.h.


miðvikudagur, nóvember 23, 2005 :::
 
Hæ,
Langt er nú síðan ég hef bloggað, Kannske kominn tími til að loka sjoppunni!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:59 e.h.




Powered by Blogger