Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, október 04, 2005 :::
 
Hæ,
Ég var ekki fyrr búin að setja inn síðustu færslu en netstjórinn hjá mér gaf út tilkynningu þess efnis að bilun hefði átt sér stað hjá Og Vodafone. Þar var engu til logið og allt í einu var ég og mitt umhverfi algerlega án símasambands og netsambands við umheiminn. Ekki var lengi verið að finna skýringu á biluninni. Jónína Ben hlyti að hafa klippt á öll fjarskipti, jafnt eftir þræði sem þráðlaus, til að koma í veg fyrir að tölvupósturinn hennar læki stjórnlaust yfir lönd og lýð og til að stöðva skrif bloggara, sem eru tilbúnir að ata hana auri og óhróðri á síðum sínum, sem þeir vilja auðvitað að sem flestir lesi.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:28 e.h.


 
Hæ,
Mér þætti fróðlegt að vita hvað Jónína Ben hefur fengið greitt fyrir að hætta við að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Skyldi hún hafa fengið dágóða peningaupphæð og bíl, t.d. hvítan Audi, í kaupbæti? Skyldi flokksforystan hafa verið örlátari en Jóhannes í Bónus, sem lagðist á sjóði sína eins og ormur á gullforða, þegar Jónína fór að rukka hann fyrir næturgreiðann og það ekki á neinum Bónus-útsöluprís, heldur var vel smurt á og álagningin stjarnfræðilega margfalt hærri, en sú álagning sem Bónus-feðgar hafa vogað sér að bjóða sauðsvörtum almúganum upp á til að fjármagna lúxuslíf í útlöndum og skemmtisnekkjusiglingu á bláum öldum.
Það fréttist líklega lítið af kaupmála Jónínu Ben og Sjálfstæðisflokksins á prenti, þar sem búið er að setja lögbann á birtingu tölvupósta Jónínu Ben í Fréttablaðinu og lítið stuð þar á ferðinni og menn verða í náinni framtíð að láta sér nægja að agnúast út í ríkisstjórn og ráðamenn, vegaframkvæmdir og sjúkrahúsbyggingar, sem er auðvitað ekkert annað en gömul grautarlumma sem allir eru hættir að hafa lyst á.
Góð var röksemdarfærslan hjá ónefndum ritstjóra, sem bar fyrir sig þau rök að ekki hefði verið neitt athugavert við það að Morgunblaðið skyldi á sínum tíma birta tölvupóst sem þingmaður nokkur sendi samstarfsmönnum sínum, þar sem hann hefði sent hann á 62 móttakendur og þar með hefði plaggið komið fyrir svo margra sjónir. Var ekki Jónína Ben örugglega búin að senda og sýna álíka mörgum sinn tölvupóst eða jafnvel fleirum? Það verður stuð þegar hún fer að í fýlu við Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vilja hana ekki á framboðslistann og fer að fjalla um samskipti sín við flokkinn við hvern sem er, hvar sem er og hvenær sem er.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:42 f.h.




Powered by Blogger