Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, maí 18, 2006 :::
 
Hæ,
Ég hélt um daginn að ég væri að deyja. Ég var á gangi í Elliðaárdalnum í yndislegu vorveðri, sem reyndist pólsk hitabylgja og mistur þegar betur var að gáð. Skyndilega varð ég gripin slíku máttleysi að ég var sannfærð um að mín hinsta stund væri upp runnin og að mér gæfist ekki ráðrúm til að segja bless við ættingja og vini. Ég tilkynnti að ég gæti varla staðið á fótunum og settist örmagna á litla þúfu, þar sem ég var viss um að ég myndi bera beinin. Mér fannst svo sem ekki amalegt að kveðja hið jarðneska líf á fegursta og heitasta degi vorsins við gróðurangan, starrablístur og samfelldan umferðarnið.
Þá varð mér hugsað til tveggja kvikmynda. Önnur kvikmyndin er japönsk og heitir Tampopo. Hún fjallar um hversu stóru hlutverki matur gegnir í öllu daglegu lífi mannkynsins. Í einu atriðanna liggur húsmóðurkind í andarslitrunum er eiginmaður hennar kemur heim. Hann fleygir sér við hlið hennar og hrópar að hún megi ekki deyja, hún verði að berjast gegn dauðanum. “Gerðu eitthvað! Eldaðu kvöldmatinn, kona!” grætur hann hástöfum. Og viti menn. Húsmóðirin víkst ekki undan þessari sjálfsögðu kröfu, stendur upp af banabeði og eldar dýrindis kvöldmat handa fjölskyldunni. Síðan deyr hún.
Í framhaldi af þessu varð mér hugsað til þess að ég átti eftir að elda kvöldmatinn og líka að gera vorhreingerninguna - verkefni, sem engin sómakær húsmóðir lætur óunnin þegar eigið andlát ber að höndum. Þegar ég reis upp af þúfunni til að sinna þessum starfsskyldum mínum varð mér hugsað til hinnar söguhetjunnar, sem er alkunn fyrir að halda ró sinni, stillingu og ekki síst kímnigáfu við hvaða aðstæður sem er, svo sem pyntingar, dauða, tortímingu og útrýmingu, svo fátt eitt sé nefnt. Ég ákvað að fara að fordæmi þessara hetju, sem sagt: To die another day.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 7:01 e.h.


þriðjudagur, maí 16, 2006 :::
 
Hæ,
Það kemur fyrir að ég horfi á amerískar stórmyndir mér til skemmtunar og yndisauka, sérstaklega ef þar leika frægir og fallegir leikarar og leikkonur. Ég verð stundum alveg gáttuð á því hvað bandarískir framleiðendur láta sér detta í hug að bjóða manni upp á. Um daginn var sýnd í sjónvarpinu mynd, þar sem George Clooney, Julia Roberts og Andy Garcia voru í aðalhlutverkum. Andy átti spilavíti með öllum útbúnaði og virtist raka saman peningum úr öllum áttum, enda ekki skrýtið, þar sem fullt af fólki er æst í að freista gæfunnar við spilaborðið og hefur fæst erindi sem erfiði – eða ætti ég að segja fjárútlát. Hann bjó ásamt Juliu í spilavítinu í virkilega huggulegri svítu, en það sem fór mest í taugarnar á mér var að fólk með tekjur á borð við þau, skyldi ekki vera með sérútgang úr svítunni sinni, heldur þurfa sífellt að fara gegnum allt spilavítið til að komast út á götu. Til hvers að eiga alla þessa peninga og þurfa að troðast gegnum spilavítissal til að komast út? Ég gerði mér fulla grein fyrir því að þetta fyrirkomulag var nauðsynlegt upp á söguþráðinn, en samt... ég hefði látið gera sérútgang fyrir mig eða búið í einbýlishúsi úti í bæ.
Aðra mynd horfði ég á með Diane Keaton, Jack Nicholson og Keanu Reeves í aðalhlutverkum, þar sem þeir tveir kepptu um hylli hennar og þá datt alveg yfir mig. Hvernig datt framleiðendum í hug að láta konu um sextugt falla bæði fyrir Jack Nicholson og fyrir persónunni, sem hann lék, en gefa Keanu Reeves og persónuna sem hann lék upp á bátinn?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:17 f.h.




Powered by Blogger