Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, júlí 12, 2007 :::
 
Hæ,
Lengi hefur mig dreymt um að fara í ferðalag um frumskóga heimsins og ösla þar um í gegnum villigróður og torfærur, en á sunnudaginn læknaðist ég algerlega af þeirri bakteríu.
Ég skrapp upp í Heiðmörk og fór út af göngustígnum. Þar með var ég komin á svæði þar sem trjám hafði verið plantað meira af nokkuð meira kappi en forsjá, þ.e. með eins til tveggja sentimetra millibili, vegna þess að skógræktarfólkinu datt ekki í hug að nokkur trjágrein myndi þrífast á þessu harða og kalda landi. Þá var líka talsvert um birkikjarr og einnig var lúpínugróður mjög þéttur og hár á þeim örsmáu blettum inn á milli trjánna, sem trjágróður hafði einhverra hluta vegna ekki þrifist á. Fyrir utan þessa farartálma stóð yfir í Heiðmörk útihátíðin "Save flies on Earth", sem var sérstaklega vel sótt og velheppnuð í alla staði að mati þátttakenda.
Næsta ferð til útlanda verður þess vegna örugglega borgarferð.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:03 f.h.


mánudagur, júlí 09, 2007 :::
 
Hæ,
Um daginn var ég talsverðan hluta dagsins í sama herbergi og frekar ung stúlka, a.m.k. miðað við mig, líklega milli þrítugs og fertugs. Hún talaði talsvert í síma þann dagpart sem við eyddum saman. Ég lét samtölin að mestu fara inn um annað eyrað og út um hitt. En ég komst ekki hjá því að heyra þegar hún sagði, að læknunum hefðu grunað að svo væri í pottinn búið þegar fóturinn hans hefði verið svona bólginn.
Ég lét þetta svo sem ekkert voðalega á mig fá, enda er ég næstum því að verða umburðarlynd þegar svona málvillur ískra í eyrunum á mér. Allavega tel ég svona lagað ekki algera dauðasynd lengur, bara lífstíðardóm.
Það sem mér fannst miklu verra var að jafnframt þessari nauðgun á móðurmálinu tilkynnti konan viðmælanda sínum að hún hefði sótt um stöðu aðstoðarskólastjóra og getur ábyggilega fengið stöðuna, vegna þess að kröfurnar í íslenskukunnáttu eru engar.
Verst þykir mér að langflestum er alveg skítsama um þetta og hafa enga hugmynd um - frekar en þessi kona - að hér er um málvillur að ræða.
Fyrir utan þennan meinlega galla var þetta alveg ljómandi kona.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:03 e.h.


sunnudagur, júlí 08, 2007 :::
 
Hæ,
Ég keyrði fram skilti sem stóð á: Risaútsala! Það er greinilega verið að selja risa. Ég hefði keypt mér einn, en sá ekki fram á að ég kæmi honum í bílinn, svo ég sleppti risainnkaupum. Kom í staðinn við í bakaríi, sem selur óætar kökur. Eplapæ, sem er úr deigi, sem minnir ekki að neinu leyti á pæ og þótt ég hefði átt að vinna mér það til lífs hefði ég ekki getað látið mér detta í hug að þessi því sem næst ósýnilega klessa sem var inni í glerhörðu deiginu væri kennd við epli. Ég hefði betur keypt mér einn risa og látið hann hlaupa heim á eftir bílnum. Svo er bara að finna út í hvað væri hægt að nota risann.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:55 e.h.




Powered by Blogger