Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 02, 2005 :::
 
Hæ,
Ég fór nýlega í alveg snilldarskemmtilegt, afslappað og yndislegt brullaup norður á Akureyri, þar sem ungt og frítt par gekk í hjónaband í Akureyrarkirkju, sem stendur á einu fegursta kirkjustæði í heimi. Á eftir var veisla í safnaðarheimilinu með útsýni yfir Pollinn og Vaðlaheiðina. Ekki amaleg umgjörð það.
Ég grét þegar brúðurinn kom inn í kirkjuna, svo fríð og ljómandi. Ég grét þegar presturinn talaði til brúðhjónanna. Ég grét þegar brúðhjónin gengu ljómandi og hamingjusöm fram kirkjugólfið að lokinni athöfn. Ég grét þegar faðir brúðarinnar hélt ræðu. Ég grét þegar stjúpmóðir brúðarinnar hélt ræðu. Ég grét þegar föðursystir brúðarinnar hélt ræðu. Ég grét þegar móðir brúðgumans hélt ræðu. Ég hló þegar systkini brúðarinnar héldu ræðu og ég grét af hlátri þegar bróðir brúðgumans hélt ræðu. En ég skemmti mér afar vel í brúðkaupinu, þrátt fyrir að ég brysti reglulega í grát. Ættingjar mínir, sem næst mér sátu skemmtu sér einnig mjög vel og voru þegar farnir að hugleiða hvenær þeir kæmust næst í brúðkaup og fóru að spyrja hin og þessi pör, hvort þau væru gift og hvort ekki mætti eiga von á brúðkaupi í bráð. Einnig voru einstaklingar sem ekki voru með einhvern upp á arminn spurðir hvort þeir ætti ekki kærustu eða kærasta, þannig að hægt yrði að komast sem fyrst aftur í skemmtilega giftingarveislu.
Vonandi verður okkur boðið til brúðkaups fljótlega, svo að sannist hið fornkveðna að allt af hinu góða geti haft víðtæk áhrif.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:57 e.h.




Powered by Blogger