Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 05, 2003 :::
 
Hæ,
Er Dorrit Moussaieff ekki örugglega nýbúi?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:27 f.h.


fimmtudagur, desember 04, 2003 :::
 
Hæ,
Ég var beðin að koma eftirfarandi til skila vegna fjölda áskorana:

Óskalisti Eyjólfs:
Leðurbelti, lengd 120 metr... nei, afsakið! Ég meina auðvitað 120 sm
USB-fjöltengi
Eitthvað sem ég man ekki hvað er - nánar um það er minnið hrekkur í lag
Kúbanska - Tómas R. Einarsson. Fyrir fáfróða - geisladiskur, ekki bók
Krassandi kynlíf – nei, nei, engan æsing! Ég er bara að ljúga þessu, sá bókina í búð í gær og fannst titillinn alveg óborganlegur. Annars ætti ég að setja hana skýringalaust á minn óskalista, sem enginn hefur ráð á.

Hann vill ekki:
Sokka
Nærbuxur
Nærboli

Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 12:59 e.h.


 
Hæ,
Mig dreymdi í nótt að Óttar bróðir væri búinn að blogga langan og skemmtilegan texta.
Þetta hlýtur að rætast í dag.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:52 e.h.


þriðjudagur, desember 02, 2003 :::
 
Hæ,
Enn ein helgin liðin með talsverðu annríki. Agneta var hjá okkur meira og minna um helgina, Sigrún Sól kom á föstudagskvöld, var fram á laugardag og bauð svo sjálfri sér í kvöldmat til okkar á sunnudagskvöld.
En hápunktur helgarinnar var að fara í leikhús í gær með Örnu og Breka að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Þessi leikhúsferð er búin að standa til í sex vikur og loksins rann upp sá dagur að farið skyldi í leikhúsið.
Um morguninn sótti á mig gömul bernskuminning frá minni fyrstu ferð til Reykjavíkur. Pabbi og mamma fóru með okkur systur - Einar var ekki til - í skemmtiferð til Reykjavíkur, sem er og verður mér ógleymanleg. Við Hildigunnur vorum veikar af tilhlökkun í marga daga áður en lagt var af stað og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Móttökur ættingjanna voru sem þjóðhöfðingjum sæmdi og þeir báru okkur á höndum sér allan tímann.
Tvö dæmi um hina óþrjótandi gestrisni: Við urðum að gista hjá öllum og fluttum næturstað okkar með reglulegu millibili. Daginn áður en við fórum heim var haldin kveðjuveisla hjá Ásmundi og Ásdísi, sem öllu frændfólkinu var boðið til. Þegar búið var að hesthúsa girnilegar kræsingar var farið í samkvæmisleiki, að leika bókaheiti, fela hlut og teikna lög, rétt eins og jólin væru komin. Þetta var um hásumar.
En aftur að hinni gömlu bernskuminningu. Foreldrar okkar, afskaplega menningarsinnað fólk, sýndu okkur helstu menningarverðmæti höfuðborgarinnar, fóru t.d. með okkur á Þjóðminjasafnið og Listasafn Einars Jónssonar, þar sem við nutum öruggrar leiðsagnar Dísu frænku, sem hafði unnið á síðarnefnda safninu, og vissi allt um listaverkin þar og það sem hún ekki vissi skáldaði hún fyrirhafnarlaust á staðnum. Á þessum tíma ársins var ekki hægt að komast í leikhús og pabba og mömmu þótti ákaflega leiðinlegt að við skyldum ekki komast í Þjóðleikhúsið til að sjá musteri menningarinnar.
En lánið lék við okkur. Einn daginn fórum við með Ásmundi og Ásdísi í bæjar- og menningarferð sem endaði á því að þau buðu í miðdegiskaffi í Naustinu. Þar gæddum við okkur á súkkulaði og rjómakökum við kongungsborðið Skíðisblaðnir, en Jan Moravek og Victor Urbancic léku létt klassísk verk á fiðlu og píanó, sannkölluð síðdegistónlist.Við Hildigunnur störðum dáleiddar á listamennina og síðasta lagið var leikið sérstaklega fyrir hina þakklátu áheyrendur. Það var Bjössi á mjólkurbílnum.
Þegar þessari dýrðarstund lauk var aftur gengið í bæinn, leiðin lá að Þjóðleikhúsinu, það skoðað að utan og mikið rætt um hversu leitt væri að við systur skyldum ekki geta séð stuðlabergsskreytinguna í loftinu. En einhverjar dyr stóðu opnar og starfsmaður gaf dreifbýlingunum góðfúslega leyfi til að fara inn. Þvílíkir salir, þvílík listaverk. Síðan þá er Þjóðleikhúsið sveipað glæsilegum ævintýraljóma í mínum huga. Ég geng þangað inn með sömu lotningu og hrifningu og ég gerði fyrir mörgum áratugum.
Það gerði ég líka á sunnudaginn var þegar ég, Arna og Breki mættum prúðbúin í Þjóðleikhúsið kl. 13:30, hálftíma fyrir sýningu, þar sem amma Didda beið eftir okkur. Þar sem við vorum svona snemma í því gengum við ömmurnar um húsið með krakkana til að sýna þeim þetta menningarsetur eins og foreldrar mínir gerðu um árið. Við skoðuðum styttur og málverk, þ.e.a.s. ég og Didda. Arna og Breki þeyttust um gangana. Þegar ég var að halda fyrirlestur - í anda Dísu frænku - um Krystalssalinn tók ég eftir því að krakkarnir voru horfin, Þau voru þá komin á bak við barborðið og fannst miklu skemmtilegra að fela sig þar heldur en hlusta á mig. Þau höfðu heldur engan áhuga á málverkinu af konunni í skautbúningnum, sem ég stend enn andaktug yfir.
En þau höfðu áhuga á dýrunum í Hálsaskólgi og lífsbaráttunni þar. Leikhúsferðin var ævintýri. Sviðið var stórkostlegt, hljómsveitin fín og leikararnir stóðu sig afar vel. Að vísu gerði Lilli klifurmús ein mistök í söngtexta - ég hrökk gersamlega í kút. Það er greinilegt að leikararnir eru búnir að bæta ýmsum gullkornum í textann og ekki var það til að spilla fyrir. Að vísu voru sumir foreldrar greinilega á þeirri skoðun að börn þeirra væru fædd menningarlega sinnuð, mér fannst nokkrir áhorfenda fullungir til að njóta leiklistar.
Arna og Breki skemmtu sér ljómandi vel og kunnu að meta leikritið. Arna söng með í öllum lögum af innlifun, ég verð að játa að ég tók einstaka sinnum undir og held að ég hafi stjórnað klappi í takt við tónlistina. Þegar sýningunni lauk veifuðu leikarar í kveðjuskyni til áhorfenda og þá tók ég eftir því mér til mikillar skelfingar að ég veifaði á móti með sælubros á vör. Ég var fljót að kippa handleggnum niður frekar skömmustuleg yfir að hafa lifað mig svo sterkt inn í sorg og gleði íbúanna í Hálsaskógi. Gæti verið að heimsóknin í Þjóðleikhúsið forðum daga hafi átt sinn þátt í þessari innlifum?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:03 e.h.


mánudagur, desember 01, 2003 :::
 
Hæ,
Allt í lagi, það getur verið að óskalistinn minn hafi verið dálítið yfirdrifinn, sérstaklega þegar komið er að fátækum námsmönnum. Þeir gætu nú samt notað eitthvað á listanum með því að sleppa góðmálmum og gimsteinum. Bara nota hugmyndaflugið! Annars má fólk líka gefa mér eftir eigin höfði eða sleppa því að gefa mér. Ég móðgast ekkert. Gjafirnar eru ekki aðalatriðið, heldur boðskapur jólanna – síðasta setningin lesist mærðarlegri píslarvættisröddu.

Óskalisti minn til fátæka námsmannsins og síblanka fólksins:
Brauðbretti
Eggjaskeri
Handáburður
Vasaklútar
Skóhorn
Ostahnífur

Fyrir venjulegt fólk:
Kærleikskúlan 2003 – listaverk eftir Erró til styrktar sumarbúðum fatlaðra í Reykjadal. Fæst í Kokku
Málmborð - í Ótrúlegu búðinni í Kringlunni - til vinstri þegar inn er komið
Náttkjóll
Serviettuhringir

P. S. Vinsamleg ábending: Það er hægt að fá fullt að skemmtilegum hlutum í Tiger, sem eru næstum því eigulegir.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:44 e.h.




Powered by Blogger