Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júní 11, 2007 :::
 
Hæ,
Sigrún Sól-arljós var að byrja í unglingavinnunni í morgun. Um hádegi í gær voru röndóttu stígvélin tilbúin, glansandi ný, alveg eins og upp úr kassanum, þó svo hún hefði notað þau í unglingavinnunni í fyrra. Amman var beðin að leita uppi gula regnslá og koma með hana sem fyrst, svo allur vinnugallinn væri tilbúinn með góðum fyrirvara. Amman sagði að spáin væri mjög góð og engin hætta á rigningu fyrr á miðvikudag samkvæmt veðurspá. En Sólarljósið treystir vísindamönnum ekki alveg blint og vildi hafa allt á hreinu. Þegar maður er búinn að vera í unglingavinnu eitt sumar lærist á hlutina. Fólk með reynslu veit að skjótt skipast veður í lofti og eins gott að allur búnaður sé á vísum stað og í fulkomnu lagi. Hversu oft hafa ekki borist fréttir af hinum og þessum sem ana og gana illa klæddir án nauðsynlegs búnaðar eitthvað út í loftið og svo fer allt á hinn versta veg?
Þegar litið var til lofts í morgun var býsna þungbúið og kannske hafa nokkrir dropar fallið á Sólina, þannig að hún hafi þurft að sveipa um sig gulu regnslánni um stund. En svo braust sólin fram úr skýjum og vermdi allt og alla, þar á meðal krakkana í unglingavinnunni. Vonandi hafa verið næg verkefni þar á bæ í dag. Sólinni fannst frekar lítið að gera í vinnunni í fyrrasumar og olli það henni talsverðri óánægju og hugarangri. Hún sagði að hópurinn hefði verið nánast verkefnalaus fyrstu vikuna og einn daginn hefðu þau ekkert unnið, bara verið að leika sér. Hún hafði af þessu þungar áhyggjur, skildi ekkert í fyrirhyggjuleysi verkstjóranna að hafa ekki næg verkefni á reiðum höndum handa vinnufúsum og áhugasömum launþega, sem fannst verkefnin alls staðar blasa við, er hann mætti galvaskur til vinnu í nýjum stígvélum og gljáfægðum hjólastól. Eins vildi hinn nýi starfsmaður bæjarfélagsins, að ráðamenn borgarinnar fengju sem fyrst upplýsingar um stöðu mála, svo hægt væri að lækka launin hennar í samræmi við þá vinnu sem innt hafði verið af hendi, eða réttara sagt, sem ekki hafði verið innt af hendi. Hún gæti engan veginn tekið á móti launum þegar ekkert væri vinnuframlagið og enginn starfsárangur.
Kannske að seðlabankastjórinn ætti að taka Sigrúnu Sól-arljós sér til fyrirmyndar?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:18 e.h.




Powered by Blogger