Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, júlí 16, 2003 :::
 
Hæ,
Ég fór í Nóatún í Smáralind í gær, sem er ekki í frásögur færandi, nema þegar ég renni inn á planið tek ég eftir því að búið er að koma fyrir dálitlu tívolí á stórum hluta bílastæðanna. Þetta virtist ekki koma að sök fyrir viðskiptavini, því að nóg var eftir af stæðum. Annað hvort eru stæðin of mörg eða viðskiptavinir of fáír.
Meðan ég var að versla í Nóatúni var eitthvað í undirmeðvitundinni sem sífellt kallaði tívolíið fram í huga mér. Orðin hneisa og heimska skutu aftur og aftur upp kollinum. Ég gat ekki komið fyrir mig hvaða umræðu ég hafði lent í og ákvað því að skoða þetta fyrirbæri aðeins til að mynda mér sjálfstæða skoðun á því. Ég keyrði þess vegna hringinn í kringum staðinn og virti fyrir mér. Það var eiginlega enginn þar og ég hélt að væri lokað, þar til ég sá starfsmann skjótast milli tækja. Mér fannst þjóðinni til skammar að íslenskar fjölskyldur skyldu ekki vera þarna í stórhópum til að skemmta sér í uppbyggilegri og fjölbreyttri skemmtan, þegar er verið að hafa fyrir að flytja tækin hingað til lands dýrum dómum og koma þeim fyrir á úrvalsstað í alfaraleið. Fyrir utan hvað þetta er ódýr upplyfting. Ekki viljum við að tívolíhaldarinn sitji uppi með tap.
Þar sem ég hafði verið svo frjálsleg að opna sjónvarpið í gærmorgun og horfa á þáttinn Í bítið, ákvað ég halda áfram á sömu braut, sýna af mér dirfsku og fara í Tívolí. Ég byrjaði á að kaupa mér tvær pylsur og kók og sporðrenndi því á mettíma til að fá svolitla stemningu í kroppinn.
Svo fór ég í X-treme. Mér fannst það nú frekar bragðdauft og tilþrifalítið, það var eins og vantaði smátrukk. Þá fór ég í bollana, fékk mér kók og hraun í nesti, hreiðraði um mig í rauðum bolla - ég vil helst kalla þetta sófa, svo vel fór um mig - og horfði dáleidd á Smáralindina og Hlíðarsmárann snúast fram hjá mér. Þar sem ég var ein í tækinu var starfsmaðurin á hjólum í kringum mig og sneri bollanum mínum án afláts. Ég hagræddi mér enn betur og naut þessarar stundar út í ystu æsar. Síðast fór ég í tæki sem heitir Freak-out. Ég slakaði vel á, hélt samt lauslega um járnið. Þessi ferð jafnaðist fullkomlega á við fyrsta flokks klukkutíma nudd. Hvílík sæla. Mér fannst skemmtilegast þegar kom eins og léttur slynkur á arminn í snúningnum. Ég bað Guð um að láta þetta standa sem lengst. Eina sem ég hafði við þetta að athuga var að mér salibunurnar í stysta lagi, svo ég fór aðra umferð.
Í dag ætla ég aftur í tívolíið við Smáralindina, beint í Freak-out, a.m.k. fjórar ferðir. Ég verð þar um fjögurleytið ef einhver í fjölskyldunni skyldi vilja koma með og njóta hollrar og heilbrigðrar skemmtunar.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:33 e.h.


þriðjudagur, júlí 15, 2003 :::
 
Hæ,
Ragnheiður aftur farin að blogga - velkomin til baka - Friðgeir bloggar reglulega - til að móðga hann ekki meira - en Beigó dottin út í bili. Það gengur vel hjá henni og Agnetu í sumarfríinu. Ég hringdi í þær í gærkvöldi um tíuleytið og þá var Agneta greinilega önnum kafin við að njóta frísins og var ekki á þeim buxunum að fara að sofa í sólarbirtunni.
Það er rólegt í vinnunni núna, margir farnir í frí og aldrei er betra að vera í vinnunni en á þessum árstíma. Lítil truflun, hægt að klára verkefnin án þess að hringt sé eða kallað. Utanaðkomandi áreiti - það sem gerir alla svo stressaða - er í lágmarki. Þjóðfélagið í hálfgerðum dvala í vinnunni, en í brjáluðu stressi að njóta sumarfrísins.
Ég gerði nokkuð í morgun, sem ég hélt að ætti varla eftir að gerast. Ég opnaði sjónvarpið og horfði og hlustaði á Í bítið á Stöð 2. Illugi var þar með góðan pistil um samræðupólitík, leyndarstefnu og furðustefnu hérlendra ráðamanna hvað varðar samskipti þeirra við bandaríska ráðamenn þessa dagana, veru hersins og mál dátans (alltaf kallaður varnarliðsmaður í fréttum), sem beitti hnífi í miðborg Reykjavíkur. Ingibjörg Sólrún sagði frá ferð sinni á Alþjóðaþing jafnaðarmanna (mið-vinstrimanna) las ég einhvers staðar. Eins gott hjá vinstri mönnum hér á landi að hafa skilgreininguna skýra, vera ekki of mikið til vinstri, kljúfa vinstri menn þvers og kruss, svo að íhaldið og þeirra pótintátar geti notið sín og fengið sem mest fylgi. Burtséð frá klofningshörmungum vinstri manna talaði Ingibjörg skýrt og skilmerkilega, með yfirsýn yfir málin og hældi Blair og Clinton, sem hún sagði langflottastan. Mér hefur líka alltaf fundist Clinton algert æði og hef heillast af textameðferð Blair. Ég ætti e.t.v. að opna sjónvarpið aftur í fyrramálið. Mér finnst barnatímapæjan í þættinum vera alltof barnatímaleg og hlæja of mikið í útsendingu. Getur hún ekki hlegið að einhverju fyndnu og bitastæðu utan vinnutíma í stað þess að reka upp hláturrokur og flissa í hvert skipti sem karlstjórnandinn í þættinum segir eitthvað og hún sjálf lætur út úr sér? Ég gat ekki hlegið að neinni spurningu frá henni.
Nóg í bili.
Kveðja
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:52 e.h.




Powered by Blogger