Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, mars 31, 2004 :::
 
Hæ,
Konan, sem komin er á sjötugsaldur, var svo hress og lukkuleg eftir velheppnuðu afmælisveisluna, pakkapartýið næsta dag og daglegar gjafasýningaveislur næstu daga, alveg eins og unglamb á reginfjöllum. Síðan fór allt í einu að draga af konunni kátu og þreyta eftir margra vikna skipulagningu og afmælisáhyggjur fór að láta á sér kræla. Allt í einu fannst mér ég vera orðin a.m.k. áttræð, ég staulaðist með harmkvælum milli stóla og hneig niður í þá með þungu andvarpi. Ég rétt komst með herkjum úr sjónvarpsófanum með stuttri viðkomu á baðherberginu inn í rúm. Mig brast stundum krafta til að halda uppi bók til að lesa nokkrar línur fyrir svefninn.
Það er greinilegt að ég þarf að halda nóg að partýum og vera sífellt að skemmta mér til að viðhalda æskuljómanum. Sem sagt best að herða sig upp, drífa sig í betri leppana, ýta á stuðpinnann, dansa og syngja. Óbrigðult ráð. Dugar miklu betur en hvers kyns lýtaaðgerðir og galdrakrukk. Ég er öll að hressast við tilhugsunina eina.

ÍSLENSKT EÐA ÚTLENT
Þórdís er greinlega búin að setja allt á annan endann með sakleysislegri fyrirspurn – Uglan eða Neon? Í mínum huga er enginn vafi. Veljum íslenskt! Ekki láta glepjast af útlendum nöfnum. Við vitum öll að í útlöndum er ekkert skjól, heldur ríkir þar eilífur stormbeljandi. Ekkert útlent frauðmeti. Er ekki komið nóg að útlendum nöfnum hér á landi? Það er varla hægt að fara á skyndibitastað sem heitir íslensku nafni – Eldsmiðjan er undantekning. Hinir heita: McDonalds, Kentucky Fried, Ruby Tuesday, Dominos og Shalimar. Þeir sem velja íslenskt nafn, gott og gilt, á bókaklúbbinn sinn eiga skilið að njóta virðingar bókaunnenda langt umfram þá sem hafa ekki þann smekk að skíra klúbbinn í íslenskum bókmennta- og lærdómsanda. Væri ekki miklu skemmtilegra að borða á Subbuvegi, heldur en á Subway?

Þá dettur mér í hug nokkuð sem ég hef oft prédikað. Neytendur hafa ótrúlegt vald, sem þeir virðast ekki gera sér grein fyrir. 80% ráðstöfunartekna heimilanna hafa runnið í gegnum hendur kvenna. E.t.v. er að verða breyting á því með mjúku mönnunum, sem hafa svo gaman af að ganga um með svuntu og elda framandi rétti með fáheyrðu kryddi. Konur gætu sett heila verslunarkeðju á hausinn á einni viku með því að sniðganga hana, enda má segja að Nýkaup hafi lognast út af hægt og hljótt vegna þess að íslenskar húsmæður hættu upp til hópa að versla þar. Enda ekki furða, allt rándýrt, rúmlega helmingi dýrara en annars staðar og þjónustan, sem svo mikið var auglýst, fyrirfannst ekki í búðinni. Ég fór innan við tíu ferðir í Nýkaup meðan það var og hét. Beindi innkaupum mínum í Nóatún og Bónus, versla aðallega hjá þeim síðarnefndu núna, en er að verða pínulítið pirruð á þeim feðgum.

BÍÓ
Við hjónin erum búin að fara tvisvar í bíó á fimm dögum. Þetta hefur ekki gerst í áratugi, held ég, ekki síðan haldin var einhver stórkostleg kvikmyndahátíð eða eitthvað.
Við sáum Lost in translation. Ég veit ekki hvað myndin heitir á íslensku. Ég þorði heldur ekki að spyrja um íslenskt nafn. Þegar við sáum Bond-myndina Die another day hafði ég heyrt mjög skemmtilega þýðingu á nafninu í útvarpsþætti. Ég spurði því stelpuna í miðasölunnni hvað myndin héti. “Hún heitir Die another day”, hvein í hátalarakerfinu. “Hvað heitir hún á íslensku?” spurði ég og reyndi að halda stillingu minni. “Þetta er enska og þýðir að eigi að deyja annan dag,” svaraði lingvistinn bak við miðasöluglerið. Guð, hvað mér fannst hún vitlaus og sú tilfinning var örugglega gagnkvæm. Ábyggilega einhver leiðindakennslukona eða íslenskufrík í hennar augum, nema hvoru tveggja væri.
Við sáum Píslarsöguna, kvikmynd Mel Gibson. Ég var stjórhrifin. Blóðbaðið í myndinni var að vísu nokkuð yfirdrifið, svo ég pírði augun nokkuð oft, eða horfði milli fingra mér. Gefst vel þegar ógeðslegar senur eru á skjánum. Flottar týpur í hlutverkunum. Flott að tala arameisku og latínu. Miklu frekar í anda Krists heldur en enska með amerískum framburði. Ég skildi alla latínuna og nú langar mig að finna gömlu latínubækurnar mínar, rifja upp málið og fara að tala latínu. Arameiskan heillaði mig algerlega. Kraftmikil og kyngimögnuð tunga.

FYRIRSPURN
Kannast einhver við lag sem heitir “Piensa en mi” eftir Augustin Lara sungið af Luz Casal? Á einhver þetta lag inni í tölvunni sinni? Ég heyrði þetta lag í útvarpinu um daginn og varð gersamlega heilluð.

VEÐRIÐ
Í marga daga hafa veðurfræðingar spáð rigningu. Þetta hefur allt staðist, úrkoman hefur skilað sér fullkomlega, nema bara í snjóformi.

Er þetta ekki bara nokkuð gott í dag? Kannske of langt og leiðinlegt?
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 11:52 f.h.




Powered by Blogger