Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, janúar 06, 2005 :::
 
Hæ,
Enn næ ég ekki upp í nefið á mér fyrir reiði vegna hjálparstarfsins á flóðbylgjusvæðunum og þá sérstaklega vegna þess að Íslendingar skuli ganga undir Svíum, einni ríkustu þjóð heims, sem ég man ekki eftir að hafi orðið harkalega fyrir barðinu á náttúruhörmungum, landi sem stóð utan blóðugra heimsstyrjalda, sem háðar voru á evrópsku landsvæði, og stórgræddi á því að selja hergögn og stríðsbúnað í allar áttir, meðan nágrannarnir voru hernumdir og ofsóttir.
Ég er ekki að gera lítið úr martröð þeirra Svía, sem lentu í flóðunum, en sú martörð getur varla verið skelfilegri en upplifun heimamanna, sem hafa líka misst eða vita ekki um afdrif ástvina, slasast, misst vinnu, eiga margir hverjir ekki að neinu að hverfa sem stendur og eiga jafnvel ekki eins ríka vini og Svíarnir. Ég veit að sænska þjóðin hefur fyllilega efni á að aðstoða þegna sína af myndarskap og rausn og þarf ekki að þiggja boð íslenska forsætisráðherrans, sem sett er fram í dómgreindarleysi, þegar honum verður ljóst að framlag íslenska ríkisins er nokkuð nánasarlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Áhugavert væri að vita hvað flugferðin kostaði héðan til Tælands, til Svíþóðar með Svíana 38 og síðan heim. Læknar og hjúkrunarfræðingar – 18 manns samtals – rúmir þrír sjúklingar á mann. Tvær flugáhafnir.
Heilbrigðisráðherra var í Leifsstöð og tók á móti björgunarliðinu þegar það kom örþreytt heim eftir erfiða ferð. Vissulega hafa allir þar í hópi lagt sig fram og gert allt sem hægt var til að aðstoða sjúklingana og létta þeim þjáningar og sorg. En varla hefur þetta fólk farið sem sjálfboðaliðar í ferðina, enda engin ástæða til að vinna frítt. Til þess er bara ætlast af listafólki, aðrir sérfræðingar fá að fullu greitt fyrir sitt framlag.
Mig tekur í þessu máli afar sárt hlutskipti meðbræðra okkar, sem ekki njóta slíkrar meðferðar og aðhlynningar þeirra sem meira mega sín, sem ekki hafa notið aðstoðar þeirra, hlýju, stuðnings eða samúðar í orði og í verki.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:54 e.h.


mánudagur, janúar 03, 2005 :::
 
Gleðilegt nýtt ár!
Nýtt ár er hafið og enn og aftur þakka ég Guði og mönnum hátt og í hljóði fyrir að vera á lífi, hraust og hress á líkama og sál, þótt einhverjir sjálfskipaðir sérfræðingat telji efalítið að bæta megi sálarlíf mitt verulega og væru sjálfsagt til í að fá að leggja hönd á bagga í þeim efnum. Hvort þeir hefðu árangur sem erfiði veit ég ekki.
Í dag þakka ég fyrir að hin daglega rútína er hafin að nýju að afloknu umfangsmiklu jólahaldi, ég er komin aftur á bak við mitt skrifborð, mitt örugga og haldgóða skjól í amstri hversdagsins.
Yfir jólin eldaði ég skötu, lúðu, lax, rækjur, hangikjöt, hreindýr, fasana, lambahrygg og hamborgarhrygg, bjó til tvær gerðir af ís, hollan og óhollan – sá óhollari fannst mér betri – brúnaði karftöflur með nýjum hætti, bjó til ótal sósur og jafninga, jólasalat, rjómasalat, bauð upp á heimagert laufabrauð, þrjár gerðir, jafnmargar smákökutegundir, heimabakaðar auðvitað, hátíðakaffi, súkkulaði og úrvalste af ýmsum gerðum og margskreytti borðstofuborðið með jóladúkum, jólaserviéttum, kertum, ávöxtum og jóladóti. Ég fékk innanhússaðstoð við síldarsalatsgerð og matarbrauðsbakstur og aðstoð tveggja kokka utan úr bæ, annar sá um að matreiða hörpuskelfisk og hreindýrsbita – sem mátti ekki matreiða í gegn - og hinn sá um að baka jólaspeltköku og búa til Waldorf-salat a la Solla.
Þessu öllu fylgdu jólagjafir, lestur bóka, sjónvarpsgláp, vökur fram eftir nóttu og svefn fram eftir morgni.
Þegar hóglífi og jólaleti voru að ná hámarki bárust fréttir af jarðskjálfta og flóðbylgjum á Indlandshafi. Í fyrstu fréttum var talað um að jafnvel 10.000 manns hefðu farist. Mér varð spurn: Hvernig er hægt að tala um 10.000 manns? Þessa tölu má ábyggilega tífalda. Það hefur líka komið á daginn. Í dag er talað um 155 þúsund manns og ég veit að sú tala á eftir að hækka. Ekkert almannavarnakerfi virðist til á þessum slóðum, aðgerðir fálmkenndar og aðstoð berst seint og erfitt um vik í alla staði.
Litlar fréttir berast frá Indónesíu, sem fór langverst út úr hamförunum og sama máli finnst mér gegna um Sri Lanka, varla er minnst á Indland, þar sem fólki þykir nóg um mannmergðina og e.t.v. bara guðs lifandi fegnir ef aðeins fækkar í aragrúanum.
Langflestar fréttir miðast við Tæland, þar sem flóðbylgja skall á fjölsóttum ferðamannastöðum á ströndinni. Fórnarlömb hamfaranna í Tælandi eru líklega um 5% af öllum þeim, sem urðu fyrir barðinu á náttúruöflunum. Það er samt ekki annað að skilja en þar hafi tapast dýrmætustu mannslífin - Norðurlandabúar í fríi, aðallega Svíar, sem eru innan við 2% af heildarfjöldanum. Fréttamennirnir hafa streymt þangað og Norðurlandabúarnir hafa setið fyrir hvað alla neyðaraðstoð og hjálp varðar, enda hafa þeir staðið á öskrinu af frekju og tilætlunarsemi gagnvart heimamönnum og eigin ráðamönnum. Hjálparaðgerðir virðast nær eingöngu beinast að þeim stöðum, þar sem útlendingar héldu til, en til margra staða þar sem einungis eru innfæddir, þar sem heilu þorpin eru rústir einar, hefur ekki borist nein aðstoð né hjálp.
Getur einhver skýrt fyrir mér hvers vegna sum mannlíf eru dýrmætari en önnur? Verður líf manns dýrmætara og mikilsverðara eftir því sem lífskjör eru betri og efnahagur sterkari? Fer það eftir litarhætti og menntun? Búsetu á hnettinum? Þykkt peningaveskis? Fjölda kreditkorta? Er líf þess manns dýrmætara sem hefur efni á að lifa í vellystingum praktuglega í löngu fríi á sólarströnd við Indlandshaf við hvers kyns munað og jafnvel lastalíf, en þess sem þjónar þeim fyrrnefnda á alla lund og hlýtur að árslaunum eðeins örlítið brot af tekjum túristans? Hver á að sitja fyrir þegar kemur að því að raða í sjúkrarúm, veita læknisaðstoð, aðstoða við leit að týndum ættingjum og hljóta huggun og umhyggju í kjölfar eyðileggingar og dauða, þar sem allt hefur verið lagt í rúst? Hver á að fá lyf gegn sýkingu, hver fær umbúðir á opið sár, hver fær hreint vatn og hver fær mat, þar sem allt er af skornum skammti og minna en það?
Ríkisstjórn Íslands var svo örlát að veita fimm milljónum íslenskra króna til neyðaraðstoðar. Verðugt framlag frá þjóðinni sem gaf börnum sínum drasl fyrir 200 milljónir í skóinn fyrir jól - plús jólagjafir, sem samkvæmt fréttum virtust ekki af lakari endanum. Ráðaherrunum til málsbóta verður að segjast að ákvörðun um þessa upphæð var tekin meðan tölur um mannfall voru í lægri kantinum. Þeir gerðu síðan bragarbót er gagnrýnisraddir bárust og buðust til að senda flugvél mannaða sex læknum og 12 hjúkrunarfræðingum til Tælands til að koma bágstöddum Norðurlandabúum burt frá voðasvæðunum. Það má líka telja þetta aðstoð við heimamenn, sem losna þar með við stóran vanda og ættu þá að geta einbeitt sér að sínu fólki, ef það verður þá ekki um seinan.
Rauði krossinn safnaði 60 milljónum eins og að drekka vatn, en þá varð mér hugsað til söfnunar þar á bæ fyrir nokkrum árum þegar söfnuðust rúmar 30 milljónir handa bágstöddum í Afríku og framkvæmdastjóri Rauða Krossins sagði í beinni útsendingu án þess að blikna eða blána, að 15 milljónum yrði haldið eftir fyrir rekstur Rauða krossins hér heima. Sem sagt helmingur söfnunarfjárins í það skiptið fór undir rassgatið á Rauða krossinum hér heima. Verður sami leikurinn leikinn núna? Spyr sá sem ekki veit.
Því miður er það svo að enn á ný kveðjum við liðið ár og fögnum nýju með þá vitneskju í farteskinu að kjörum mannanna er mjög misskipt. Enn einu sinni er þessi vitneskja afar áþreifanleg og sárgrætileg og nú er það vegna hinna hörmulegu atburða í Suður-Asíu og hjálparaðgerða, sem verða til þess að fylla mann reiði og örvæntingu vegna illra staddra meðbræðra, sem virðast alltaf vera aftast í biðröð mannkynsins - bæði fyrir hörmungarnar og eftir þær.
Með nýárskveðju,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:55 e.h.




Powered by Blogger