Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, desember 16, 2004 :::
 
Hæ,
Fyrir áhugasama - Jólaóskalistinn minn frá því í fyrra er enn í fullu gildi af því að ég fékk enga af þeim óskum sem þar voru settar fram uppfyllta. Einnig gerði ég stuttan lista fyrir fátæka og blanka nokkrum dögum síðar. Þessa lista má finna á blogginu mínu í lok nóvember/byrjun desember 2003.
Leitið og þér munuð finna!
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 6:03 e.h.


þriðjudagur, desember 14, 2004 :::
 
Hæ,
Það fór eins og einn vinnufélagi minn spáði – um leið og Þórólfur hverfur úr sæti borgarstjóra, verður ekki meira rætt um samráð olíufélaganna. Búið að hengja sökudólginn og olíufurstarnir sitja óáreittir í friði einhvers staðar í útlöndum með talhólf á GSM-símunum eða rödd Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns VG, sem segir að ekki náist í símann í augnablikinu og maður skuli bara gera svo vel að reyna síðar.
Annars var ég að horfa á Soprano í gærkvöldi. Óskaplega er erfitt að vera mafíuforingi og greinilega næðingssamt og ónæðissamt á toppnum. Vesalings Tony getur ekki einu sinni trúað sálfræðingnum sínum fyrir raunum sínum, sem fer frekar í taugarnar á henni. Ég mundi nú telja öruggast að halda mér saman með háttsettan mafíuforingja í stólnum og segja já og amen við öllum hans hugleiðingum. Hafa svo reikninginn í hærra lagi, en þó ekki svo háan að mafíuforinginn fyndi ástæðu til að senda skósveina sína í heimsókn til mín.
Jólin skammt undan – tíu dagar í hátíð ljóss og friðar, tíu dagar í hátíð barnanna. Allt í einu verður þjóðfélagið fullt af einhverjum jólabörnum á miðjum aldri, sem allan desember hendast áfram í stanslausri leit að jólastemmningu,sem lætur sífellt á sér standa. Þessi nafngift er ekkert annað en helber móðgun við jólabarnið, sem fátæk og örmagna móðir lagði í jötu, af því að eigi var rúm fyrir hana í gistihúsinu. Það er heldur ekki rúm fyrir hana í hjörtum jólabarna nútímans, sem öll eiga það sameiginlegt að ytri umbúnaður jólanna er yfirgengilegt glys og prjál, en hinum einfalda jólaboðskap er varpað fyrir róða. Þau hafa fyrir löngu gleymt hinni heilögu móður og víst er að ekkert þeirra myndi gera sér að góðu aðbúnað hennar og hins eina sanna jólabarns. Þeim dugar ekkert nema fimm stjörnu hótel og Saga Class í öllum ferðum.
Agneta litla er hetjan okkar þessa dagana, búin að liggja skaðbrennd á hægri handlegg og brjósti í átta daga á Barnaspítala Hringsins – samt alltaf stutt í brosið og góða skapið. Nú er hún komin heim með umbúðirnar og skreppur annan hvern dag í skiptingu upp á spítala.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:33 e.h.




Powered by Blogger