Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, maí 13, 2004 :::
 
Hæ,
Drottinn minn á gráskjóttum! Hvers lags lúkk er eiginlega búið að setja á hinar og þessar bloggsíður? Yfirþyrmandi smekkleysi og litadýrð í neonlitum, Piggy-bleikt og eiturgrænt. Það sem er verst er að eigendur síðnanna og skjallsystkini þeirra geta ekki vatni haldið af hrifningu yfir síðunum, sem hefur á einni nóttu skyndilega verið breytt í martröð lay-outerans. O tempora, o mores! Svo maður sletti nú aðeins.

Á morgun fer ég í fjarbrúðkaup, partý sem haldið er í tilefni brúðkaups Friðriks Danaprins. Fjarbrúðkaup vegna þess að partýið verður hér, en brullaupið verður drukkið í Danmörku og að nokkru yfirstaðið þegar fjarbrúðkaupið hefst.
Ég er svo fegin að Friðrik Danaprins skuli loksins vera genginn út. Satt að segja hefur piparsveinslíf hans valdið mér verulegum áhyggjum gegnum árin og oft haldið fyrir mér vöku tímunum saman. Fyrst hann var að leita út fyrir landsteinana á annað borð hefði hann að mínu mati alveg eins mátt krækja sér í íslenska eiginkonu, ýmsum dyggðum prýdda og kostum búna, en sennilega hafa Danir aldrei fyrirgefið Íslendingum fljótræðið í sambandsslitunum og því hafa íslenskar fegurðardísir ekki átt þess kost að keppa um drottningarhásætið í Danmörku. Á andvökunóttum mínum vegna konuleysis hans sá ég oft fyrir mér íslenska Danadrottningu við hlið hans með bros á vör við opinber skyldustörf, klippa á borða, gróðursetja og klappa krökkum. Miss Ástralía hreppti The Bachelor í þessari lotu.
Ég ætla að mæta í fjarbrúpkaupið på en dansk måde, eins og danskur brúðkaupsgrís, rýtandi á dönsku með jólaepli í munninum og danska fánann í eyrunum. Hlakka svo til – sérstaklega að sjá svipinn á gestgjafanum þegar hún opnar útidyrnar og sér outfittið. Svo maður sletti nú aðeins.

Á laugardaginn fer ég í Evrópusjón-partý. Ég verð eini gesturinn hjá tveggja manna fjölskyldu. Brjálað stuð og gleði. Ég veit ekki hvort allir fjölskyldumeðlimirnir ná að halda sér vakandi í gegnum prógrammið, svo þetta gæti endað í talsverðu fámenni þegar á líður.
Ég veit ekki með hvaða landi ég á að halda á laugardaginn. Ég man ekki hvort ég er búin að sjá rússneska lagið, held samt að ég hafi séð það, en man ekkert. Það væri ekki úr vegi að halda með því upp á gamlan og góðan kunningsskap við Bresnjév og þá félaga. Ekki get ég haldið með danska laginu, þar sem það er dottið út úr keppninni, samt fannst mér Tómas hinn íslenski vera eiginlega næstum sá eini, sem hélt lagi í gærkvöldi, þar sem margir sungu býsna fjarri laglínunni. Hann var flottur á sviðinu og öll sviðssetning Dananna smart og einföld.
Ég gæti vegna föðurlandsástar náttúrulega haldið með Jónsa, þó ég þekki hvorki haus né sporð á íslenska laginu. Menn fylgja oft ýmsum málefnum í blindni vegna náttúrulegrar eða ónáttúrulegrar ástar á einhverju málefni eða einhverjum manni. Það er líklega best að halda sig við þann leista. Jónsi, ne púkha, ne pera! Svo maður sletti nú aðeins.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:25 e.h.


þriðjudagur, maí 11, 2004 :::
 
Hæ,
Alltaf nóg að gera hjá manni, ég er í sífelldum boðum og partýum. Ég bauð t.d. samstúdentum mínum að skoða vinnustað minn og við höfðum samkundu í anda Seðlabankans. Ekki amalegt það. Á eftir var farið út til að borða meira og drekka meira, þar sem víkingar og magadansmeyjar sáu um skemmtiatriði á víxl. Sumum fannst þetta verulegt stílbrot. Þetta var bara ein skemmtun af ótal mörgum á undanförnum mánuðum.

Könnun
Ég tók þátt í könnun, sem ég fann á síðunni hennar Beigó. Ég er Pí. Pí er ég. Ég vissi þetta ekki en ég er fegin að ég veit þó nokkurn veginn næstum því hvað Pí er – þökk sé gömlu stærðfræðikennurunum mínum, Ármanni Helgasyni, Brynjólfi Sveinssyni og Jóni Hafsteini, sem ég sat sveitt hjá í tímum í Gagganum og MA. Þvílík pína!
Samt rifjaðist upp gömul flatarmálsformúla – radíus sinnum radíus sinnum Pí.
Ég hélt allltaf að uppáhalds- og heillatalan mín væri 8, en nú kemur í ljós samkvæmt könnuninni að heillatalan mín er nokkurn veginn 3.14159265. Allt í lagi af minni hálfu, sérstaklega ef punkturinn er tekinn í burtu og upphæðin verður að dollurum,sem ég vinn í happdrætti.

Happdrætti
Annars fékk ég í gær tilkynningu frá Cashoutlotto að ég hefði unnið 1.000.000 milljón dollara í þessu lottói, sem ég hef aldrei heyrt nefnt, hvað þá keypt miða í, en ég læt slík smáatriði ekki slá mig út af laginu eða standa í vegi fyrir væntanlegri auðlegð. Þessi tilkynning kom á e-mail, svolítið Nígeríuleg uppsetning á skeytinu. Ég er beðin “to keep this strictly from public notice” í bili eða þangað til peningarnir verða komnir inn á reikninginn minn. Einmitt það sem ég ætla að gera. Steinþegja yfir þessu. Hlakka bara til að fá vinninginn.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:09 e.h.




Powered by Blogger