Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júní 12, 2006 :::
 
Hæ,
Þegar ég tók vinstri beygju á fjölförnum gatnamótum í gær sá ég hvar Pegasus beið á biðskyldu. Hann kallaði til mín: “Hvernig er það með þig? Ertu alveg hætt að sinna ritstörfum? Af hverju ertu ekki heima að blogga?” Mér brá svo að við lá að ég setti alla umferð á Stór-Reykjavíkursvæðinu í voða eitt augnablik, en tókst að komast yfir gatnamótin og leggja bílnum skammt frá gatnamótunum, þar sem Pegasus beið rólegur eftir grænu ljósi.
Ég skrúfaði niður rúðuna og kallaði til hans: “Ég hélt að þú vitjaðir aðeins Nóbelsskálda, úrvalshöfunda og ungra efnilegra rithöfunda, eins og Andra Snæs Magnússonar með Draumalandið. Ekki datt mér í hug að þú værir að skipta þér af smábloggara, sem fáir lesa nema partur af fjölskyldunni og einstaka aðdáendur, af kverúlanti, sem á alla sína útgáfu undir útlendri vefsíðu, sem gæti horfið af veraldarvefnum hvenær sem er.”
Pegasus kallaði á móti: “Þetta er orðið allt annað líf síðan ég fékk bílinn. Það tók mig svo langan tíma að fara á milli þegar ég varð að fara allt á fjórum jafnfljótum. Nú ek ég um og vitja allra sem leggja fyrir sig ritstörf, jafnt snillinga sem leirskálda, hvort sem þeir skrifa þykkra doðranta, metsölubækur, spennusögur, vinnukonurómana eða bara blogga smávegis.”
Svo kom græna ljósið og Pegasus brunaði áfram í suðurátt að næsta umferðarljósi til að hvetja ritsnillinga og leirskáld til dáða og leirburðar á ritvellinum.
Ég stóð eftir og vissi ekki hvorum hópnum ég tilheyrði. Þegar ég settist aftur inn í bílinn tautaði ég fyrir munni mér. “Það eru naumast framfarir. Hestur kominn á bíl!”
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:27 e.h.




Powered by Blogger