Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, nóvember 17, 2004 :::
 
Hæ,
Ég verð að segja að ég er full aðdáunar á Ólöfu Sölvadóttur, sem fæddist árið 1858 á Ytri-Löngumýri í Blöndudal. Ólöf var dvergur, sem eitt út af fyrir sig er afar þungbært hlutskipti. Hún fluttist til Vesturheims 18 ára að aldri og hóf störf í fjölleikahúsi, en hraktist þaðan og var á hrakhólum um nokkurt skeið, þar sem hún hefur átt í fá hús að venda. Þá barst henni dag nokkurn tilboð frá presti á staðnum, sem var ekki betur að sér í þjóðum heimsins og landafræði en svo, að hann bauð þessari íslensku stúlku að flytja fyrirlestur í kirkju sinni um Eskimóa og Grænland og skyldi hún fá fimm dollara að launum. Ólöf þekktist þetta boð umsvifalaust og þá kom í ljós að hún var brilliant bisnesskona og kunni aldeilis að markaðssetja sig Hún varð einn vinsælasti fyrirlesari Bandaríkjanna og hélt fyrirlestra víðs vegar um þriggja áratuga skeið, þar sem hún sagði mergjaðar sögur af lífi sínu og þjóðar sinnar á Grænlandi, þótt hún hefði aldrei þangað komið né barið augum Eskimóa. Hún varð svo vinsæl að hún hafði konu til að sjá um bókanir fyrir sig og skipulagningu. Hún varð eftirsótt og hafði upp úr fyrirlestrum sínum góðar tekjur, frægð og vinsældir. Það er nokkuð sem nútímafólk leggur mikið á sig til að ná og hafa fæstir erindi sem erfiði.
Ég heyri í útvarpinu um daginn að verið var að fjalla um þessa bók og þann lyga- og blekkingarvef, sem Ólöf spann. Kona nokkur sem fjallaði um bókina, sennilega höfundurinn, gerði mikið úr blekkingum Ólafar og sagði hana hafa verið haldna persónuleikaröskun, sem líklega ætti rætur að rekja til fátæktar í bernsku og veikinda á heimilinu og þar af leiðandi ekki vílað fyrir sér að ljúgja samviskulaust. HALLÓ! Hver var ekki fátækur og veikur hér á landi um miðja 19. öld? Ég er ekki að uppljúka neinum stórsannleik né gera tímamótauppgötvun, þegar ég segi að góð heilsa og efnahagslegt öryggi var undantekning á þeim tíma. Lygin hefur verið til frá upphafi mannkyns og ekkert útlit fyrir að hún sé á undanhaldi. Það er heldur engin stórfrétt. Þá hefur fólk ávallt sóst eftir blekkingum og vill láta blekkjast.
Ólöf Sölvadóttir átti ekki margra kosta völ, en hún kunni að grípa gæsina þegar hún gafst. Hún var dvergur og þótt liðin sé næstum ein og hálf öld frá fæðingu hennar, er ég ekki viss um að hlutskipti dvergsins sé miklu betra í dag en þá, þótt allar ytri aðstæður séu talsvert frábrugðnar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ólöf sá sér leik á borði í samfélagi, sem ábyggilega hefur ekki verið henni hlýlegt eða vinsamlegt á nokkurn máta. Hún fékk tilboð upp í hendurnar, sem hún notfærði sér. Hún mat allar aðstæður rétt, hún áttaði sig á að hún kæmist upp með að segja fólki frá lífi og háttum þjóðflokks, sem það var forvitið um, þótt hún væri ekki af þeim kynþætti og þekkti ekki til hans nema af afspurn, hún vissi að frásagnir hennar yrðu ekki sannreyndar. Hún hefur búið yfir góðri frásagnargáfu og ímyndunarafli og fært sér það fullkomlega í nyt.
Áheyrendur hennar hafa greinlega ekki verið eins klárir og fyrirlesarinn, heldur gleypt við lyginni með góðri lyst og verið tilbúnir að borga fyrir. Góð blekking dregur alltaf að sér stóran hóp áhorfenda.
Ólöf Sölvadóttir sagði fólki það sem það vildi heyra. Ólöf Sölvadóttir var bíómynd síns tíma.
Ég tek ofan fyrir þessari eldkláru og sniðugu konu.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:06 e.h.




Powered by Blogger