Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, mars 27, 2008 :::
 
Hæ,
Ég veit að margir, a.m.k. þrír, bíða spenntir eftir frásögn minni af rasískum upplifunum í Bónus og vona að þeir séu komnir út úr ísskápnum, klæðaskápnum og vínskápnum til að njóta hinnar áhrifaríku frásagnar af rasisma í Bónus.
Svoleiðis er mál með vexti að ég skrapp í Bónus í sumar sem leið, einu sinni sem oftar, til að gera hin vikulegu innkaup. Að innkaupum loknum stóð ég við kassann og beið eftir að röðin kæmi að mér, en á undan mér voru tvær konur, nokkru yngri en ég, sem voru saman með innkaupakerru og voru greinilega að kaupa inn fyrir sumarbústaðarferð eða útilegu. Þegar kom að því að greiða fyrir vörurnar réttu þær báðar fram kort og önnur tilkynnti hátt og skörulega að það ætti að skipta kostnaðinum jafnt á milli þeirra. Þá verður ljóst að kassadaman var ekki með íslensku tali og sagði: "Speak English, please." Sú skörulega, sem greinilega var talsmaður þeirra tveggja, endurtók á íslensku það sem hún hafði sagt um að skipta kostnaði jafnt. "Ó, aumingja hún, talar ekki ensku," hugsaði ég með mér og í meðvirkni minni og viðleitni til að koma til hjálpar og og aðstoðar hvar sem mögulegt er tók ég mig til og þýddi beiðnina fyrir kassadömuna, svo hægt væri að halda áfram viðskiptum. Ég hafði augljóslega misskilið allar aðstæður, vegna þess að sú skörulega sneri sér að mér með illskusvip og sagði að ég ætti ekkert að vera að þýða fyrir stelpuna. Þetta fólk, sem kæmi hingað og gæfi sig út fyrir að geta unnið og þjónustað viðskiptavini Bónus-búðanna, gæti bara lært íslensku og væri síður en svo of gott til þess o.s.frv. Meðan hún hélt þennan skelegga fyrirlestur talaði hún afar hátt og skýrt og að honum loknum horfði hún sigri hrósandi i kringum sig til að ganga úr skugga um hvort allir nærstaddir væru ekki örugglega að fylgjast með og innbyrða fagnaðarboðskapinn.
Kassadaman skildi auðvitað ekki hvað um var að vera en skildi greinilega að mjög var að henni sneitt. Ég hugleiddi hvað skyldi segja og ákvað að best væri að þegja og þykjast ekki skilja neitt fremur en kassadaman, hafði enda verið að blanda mér í hluti, sem mér komu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Í kjölfar þessa skall á lamandi þögn. Þá tók fylgdarkonan af skarið og ákvað að öll upphæðin skyldi sett á hennar kort og þær tvær gætu gert hina flóknu reikninga upp síðar, jafnvel bara strax á eftir, þar sem hraðbanki væri í tíu skrefa fjarlægð. Það var ekki laust við að hún væri frekar skömmustuleg og virtist fyrirverða sig fyrir samferðakonu sína, sem hélt áfram að tauta skammir og svívirðingar í garð annarra ættbálka en arískra.
Þegar þessum geðshræringum við kassann var lokið og kassadaman búin að renna mínum vörum gegnum skannann, kom minn betri helmingur, sem hafði skroppið í rannsóknarleiðangur inn í verslunina og misst af skemmtiatriðunum. Þegar ég hafði brosað breitt til kassadömunnar, þakkað henni innvirðulega fyrir viðskiptin og almennilegheitin, tekið í höndina á henni og rekið henni rembingskoss til að bæta fyrir framkomu kynsystur minnar stundu áður, hóf ég að segja mínum betri helmingi frá nýafstöðnum sviftingum og hugaræsingi.
Hann sálgreindi rasistann á augabragði: "Þessi kona er greinilega tilbúin til að versla í Bónus og njóta náðarkjara Bónus-feðga, en hún mun ekki vera tilbúin að vinna á kassanum hérna - það er langt fyrir neðan hennar virðingu."
Svo mörg voru þau orð. Ekki þurfti að fjölyrða frekar um þetta og við hjónin gátum hafið okkur yfir hversdagsleikann og snúið okkur að umræðu um heimspeki og bókmenntir.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:28 f.h.




Powered by Blogger