Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, nóvember 02, 2006 :::
 
Hæ,
Ég hef verið mjög hrjáð af skæðri kvefpest undanfarnar vikur, hef hóstað sem mæðuveikisrolla og verið haldin mikilli vanlíðan. Loks gafst ég upp og fór í fyrradag til læknis og lét hlusta mig til að athuga hvort lungun væru full af drullu og greftri. Ekki vildi hann kannast við það og kvað of seint að setja mig á penisilín, þar sem ég væri að mestu leyti komin yfir óþverrann. Hann lét mig hafa lyfseðil upp á Mucomyst, sem ég á að taka inn þrisvar á dag, sem ég geri nokkuð samviskusamlega.
Í gærkvöldi var ég að horfa á Bráðavaktina og það skal viðurkennast að þrátt fyrir hinn mikla vísdóm, visku og fróðleik, sem ég hef orðið mér úti um gegnum árin kannast ég lítt við þau fræði- og tækniheiti, lyfja- og sjúkdómsheiti, er renna sem tungufoss upp úr stressuðu starfsliði Bráðavaktarinnar. Fyrr en í gærkvöldi. Þá var spurði einhver starfsmaður á hlaupum hvort ætti að gefa einhverjum sjúklingi Mucomyst. Ég lyftist öll upp og vissi allt í einu og skildi fullkomlega hvað hrjáði sjúklinginn. Þessi hrjáði sjúklingur var að vísu í svo miklu aukahlutverki að hann sást hvergi, það var bara minnst á hann í einni setningu og síðan var hann úr sögunni, svo ég vissi ekki hver örlög hans urðu. Vonandi hefur hann hjarnað við og farið heim, vegna þess að sé til einhver staður, sem ekki er fyrir sjúklinga, þá er það slysavarðstofan á miðvikudagskvöldum í ríkissjónvarpinu.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:27 e.h.


miðvikudagur, nóvember 01, 2006 :::
 
Hæ,
Langt er nú síðan ég hef hellt úr skálum reiði minnar og skrifað pistil í anda húsmóður í Vesturbænum eða Velvakanda á þessum síðum. Ekki að mig hafi vantað umfjöllunarefni. Öðru nær! Það hefur verið af mörgu skemmtilegu og forvitnilegu að taka og erfitt að velja og hafna. En auðvitað er ástæðan ekkert annað en tímaskortur.
Þegar ég kom við í hverfisbúðinni nýlega á leið úr vinnu til að kaupa lítilræði til að redda tertu fyrir Pálínuboð – fyrir fákunnandi: Pálínuboð er boð þar sem allir koma með eitthvað matarkyns með sér, þannig að gestgjafinn þarf aðeins að taka til og þrífa og er það oft ærið verkefni – rifjaðist upp fyrir mér atburður frá liðnu vori. Ég hafði þá lokið því skylduverki að hafa umsjón með ruslatunnum hússins, gæta þessa ð þær yrðu ekki yfirfullar, sem sagt að færa til fullar og setja tómar í staðinn. Þetta var létt verk og löðurmannlegt, þar sem tunnur þessar eru á hjólum og rétt þarf að ýta við þeim með litla fingri og beina á réttan stað. Þegar minni viku var lokið skokkaði ég yfir ganginn og hengdi ruslaleiðbeiningarnar á íbúð grannkonu minnar, sem ég hef varla nokkurn tímann heyrt eða séð, afar glöð og ánægð yfir að hafa lokið mínu skylduverki.
Næsta dag hringir dyrabjallan hjá mér og fyrir utan stendur grannkonan með spjaldið og segir mér að hún geti alls ekki leyst þetta verk af hendi. Hún sé sjúklingur við dauðans dyr, sé allan daginn áföst við súrefniskút og komist ekki spönn frá rassi vegna kútsins. Hún hafi rétt súrefnismagn til að staulast yfir ganginn og láta vita af því að hún geti ekki staðið í því að ýta til ruslagámum lengst niðri í kjallara. Hún geti ekki einu sinni farið upp á næstu hæð. Mig dauðlangaði að spyrja hana hvað hún þyrfti að gera upp á næstu hæð, en hélt mér saman og tók bara við leiðbeiningunum um meðferð á rusli í fjölbýli og bauðst til að taka að mér hennar viku, þar sem svo skammt væri milli hennar og mannsins með ljáinn.
Ekki þarf að orðlengja það, en ég skrapp reglulega í ruslageymsluna næstu vikuna til að sjá um að ekki yrði stórslys þar og fórst það vel úr hendi. Þegar vikan var liðin, hengdi ég spjaldið á þar næstu dyr og hef ekki séð það síðan.
Þetta allt rifjaðist upp fyrir mér í hverfisbúðinni tveim tímum fyrir Pálínuboðið. Jú, vegna þess að þar í búðinni sá ég hina súrefnislausu nágrannakonu mína í hinu besta skapi, þar sem hún var að versla og spjalla við kassann og virtist líða afskaplega vel svo fjarri kútnum sem hún gat ekki yfirgefið nema nokkur sekúndabrot í sumar. Hún var búin að fylla körfu af alls kyns lúxus-varningi, sem mér fannst ekki beint vera fyrir fólk sem er í andarslitrunum vegna súrefnisskorts. Mér fannst hún alveg ferlega glennt og ofurlukkuleg miðað við það hversu lík hún var líki í sumar, þegar hún átti að fara að taka til hendinni. Að vísu vil ég ekki kalla það að taka til hendinni að fara á einni viku 6 – 7 ferðir upp og niður með lyftu, labba 30 skref og ýta ruslagámi á hjólum 1 – 2 metra. Það er nokkuð sem kona í 250% vinnu gerir án þess að taka eftir því. Bara til upplýsingar þá eru þessi 50% heimilis- og hússtörf og léttir smásnúningar eins og t.d. að koma við í verslun á leiðinni heim úr 120% vinnunni. Væri ég tengd við súrefniskút fengi ég mér bara hjól undir hann - eins og maður sér í bíó og ábyggilega á íslenskum sjúkrahúsum líka - og drægi hann með mér út um allar trissur.
En mér hefndist fyrir hugsanir mínar og pirring í garð konunnar með kútinn,. Þegar ég var nokkrum dögum síðar í sömu verslun, búin að fylla körfu með alls kyns góðgæti gat ég ekki borgað því ég fann ekki með kortið mitt. Það var lán í óláni að eiginmaðurinn var með mér og greiddi fyrir óþarfann með brosi á vör. Síðan fórum við út í bíl og ég leitaði þar dyrum og dyngjum að kortinu mínu. Hvar haldið þið að það hafi verið? Jú, í búðinni í vörslu verslunarstjórans. Ég hafði skilið það eftir við kassann, þegar mér var svo starsýnt á konuna án kútsins.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:19 e.h.




Powered by Blogger