Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, júlí 03, 2008 :::
 
Hæ,
Ég vinn með hátt í um 350 karlmönnum á kanínubúinu og hef í gegnum árin gert rannsóknir á sálarlífi þeirra og tilfinningatjáningu. Þegar einhver þeirra hefur gengið hamingjusamlega í hnapphelduna og kemur aftur til vinnu, stökkvum við stelpurnar á hann og kyssum innilega til hamingju, jafnvel búnar að safna í brúpkaupsgjöf handa vikomandi, sem þýðir fleiri kossa og knús. Strákarnir segja bara: "Til hamingju!" og taka í besta falli í höndina á brúðgumanum og bestu vinirnir klappa honum vinalega á öxlina. Nú það kemur býsna oft fyrir að einhver strákanna kemur og tilkynnir um fæðingu erfingja og oft tveggja frekar en eins. Einn tilkynnti meira að segja um fæðingu þriggja erfingja af karlkyni. Sama sagan - strákarnir muldra hamingjuóskir, klappa á öxl og/eða taka í hönd föðurins með blágómunum. Alltaf jafnheftir. Við stelpurnar stökkvum með gleðiópum upp um hálsinn á nýbökuðum feðrum með ýktum hamingjuóskum og kossum, spyrjum hvernig gangi með barnið, hvernig móðurinni heilsist, hvort hún hafi rifnað mikið, hvernig gangi með brjóstagjöf og hvernig gangi á nóttinni, sefur erfinginn eða vakir. Það má þó segja þessum drengjum til hróss að þeir eru þó sumir hverjir farnir að svara þessum spurningum án þess að verða að kleinum og geta gefið vandræðalaust skýrslur um erfiðar fæðingar og brjóstagjöf.
Þetta eru í stórum dráttum viðbrögð karlmannsins á þvi sem ætla mætti að hann teldi mestu gleðistundir lífs síns.
Það virðist aðeins eitt geta fengið karlmenn til að tjá tilfinningar sínar og gleði að fullu og takmarkalaust. Það er þegar hópi karlmanna hefur með brögðum, fimi og færni tekist að þruma eða lauma leðurtuðru inn í netdræsu, sem strengd er utan um tvær súlur og eina þverslá - sem sagt að skora mark í knattspyrnu. Þá stekkur sá, sem kom knettinum í netið, hæð sína í loft upp, dansar um, hleypur út um víðan völl, hendir sér niður og faðmar jörðina eða rennir sér á hnjánum i úthræktu gervigrasinu. Aðrir í sama liði koma æðandi og taka hömlulaust þátt í fagnaðarlátunum, henda sér ofan á viðkomandi þannig að nokkrir fullorðnir karlmenn liggja í einni bendu á vellinum og mesta furða að markaskorarinn skuli lifa af. Eða félagarnir hlaupa hann uppi og hengja sig á bakið á honum eða stökkva upp á hann að framanverðu og krækja fótunum utan um mittið á honum, sem er afar heillandi sýn. Stundum faðmast tveir að loknu fallegu marki og leggja enni og nef saman og horfast í augu eins og ástfangið par, sem hefur gersamlega gleymt öllu í kringum sig. Guð, en sætir! Eftir að einn markaskorarinn í EM um daginn hafði komið tuðrunni í markið, hljóp hann sem fætur toguðu að varamannabekknum, sópaði nokkrum liðsfélögum sínum til hliðar og faðmaði og knúsaði einn sem þar sat - líklega og vonandi hefur það verið besti vinur hans - ótrúlega óheftar og taumlausar tilfinningar.
Stelpur, við skulum hafa eitt á hreinu. Trúlofun, brúðkaup og barnsfæðingar er allt saman smátterí hjá því að skora flott mark.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:08 f.h.




Powered by Blogger